Search is not available for this dataset
url
stringlengths 21
288
| text
stringlengths 1
1.35M
|
---|---|
https://www.akureyri.is/is/frettir/viltu-fara-til-japan | Viltu fara til Japan?
Akureyrarbær auglýsir eftir tveimur þátttakendum á aldrinum 15-18 ára til að taka þátt í umhverfisþingi ungs fólks í Sapporo í Japan 2.-7. ágúst 2004. Á þingið kemur ungt fólk víðs vegar af norðurslóðum heimsins til að fræðast og ræða um umhverfismál frá ýmsum hliðum. Markmiðið með þinginu er að gefa ungmennum af norðlægum slóðum tækifæri til að hittast, ræða og deila reynslu sinni og upplýsingum hver frá sínu svæði og dýpki þannig skilning sinn á umhverfismálum, lífi og framtíð á norðurhveli jarðar. Mál þingsins er enska. Megindagskráin verður dagana 3.-6. ágúst en einnig boðið upp á aukadagskrá 2. og 7. ágúst.
Yfirskrift dagskrár er: Tengsl umhverfis og manna.
Viðfangsefni vinnuhópa verða:
Vatn
Orka
Náttúrulíf - dýralíf
Úrgangur
Fjallað verður um hvernig mannfólkið stjórnar og umgengst þessi mál. Þátttakendur frá hverju svæði kynna það og stöðu umhverfismála þar. Reiknað er með þessi kynning verði vel undirbúin og unnin áður en haldið er í ferðina.
Akureyrarbær og tengiliðir úr framhaldsskólunum á Akureyri munu vinna með þátttakendum að undirbúningi og fararstjóri frá Akureyrarbæ verður með í för. Þingið er haldið af Northern Forum samtökunum sem Akureyrarbær er aðili að. Það eru samtök 25 svæða, fylkja og borga á norðurhveli jarðar. Nánari upplýsingar um Northern Forum er að finna á heimsíðu samtakanna www.northernforum.org. Þar er frásögn af samskonar umhverfisþingi í Kanada árið 2001 (smella á: Forum Activities ®Environment ®Youth-Eco-Forum).
Ferðakostnaður, uppihald og fæði, verða greidd af Akureyrarbæ. Nákvæm ferðatilhögun er ekki ákveðin en reikna má með að ferðin taki að lágmarki viku til 9 daga með öllu. Umsóknarfrestur er til 12. febrúar 2004.
Nánari upplýsingar veita Sigríður Stefánsdóttir (sigridur@akureyri.is) og Guðmundur Sigvaldason (gudm@akureyri.is). |
https://www.akureyri.is/is/frettir/vetraroyndi-og-skammdegisthreyta | Vetraróyndi og skammdegisþreyta
Nemendur Menntaskólans á Akureyri tóku í dag þátt í könnun Lífeðlisfræðistofnunar Háskóla Íslands á vetraróyndi, fyrstu könnun þessarar tegundar. Jóhann Axelsson prófessor við Háskóla Íslands ávarpaði nemendur í Kvosinni og greindi frá könnuninni og Brynjólfur Ingvarsson læknir á Fjórðungsjúkrahúsinu á Akureyri gerði nemendum grein fyrir því hvernig þeir svöruðu könnuninni, hvernig unnið yrði úr henni og hvernig nemendur gætu sótt eftir upplýsingum eða ráðum í kjölfar hennar, en könnunin er nafnlaus, og nemendum var í sjálfsvald sett hvort þeir tækju þátt í henni. Það gerðu þeir.
Í kynningu kemur fram að vetraróyndi og skammdegisþreyta sé nokkuð algengt meðal fullorðinna Íslendinga og komi fram í þreytu, syfju að degi, samskiptaörðugleikum og einbeitingarskorti og morgunsleni. Með þessari könnun er í fyrsta sinn kannað hvernig þessu sé varið hjá unglingum, hvort og hversu mikið sé um vetraróyndi hjá ungu fólki. Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands gerir það í samvinnu við Menntaskólann á Akureyri, Verkmenntaskólann á Akureyri og Fjölbrautaskólann við Ármúla. Tekið er fram að könnunin sé með fullri heimild vísindasiðanefndar og með styrk menntamálaráðherra.
Á myndinni eru frá hægri Brynjólfur Ingvarsson læknir, Jóhann Axelsson prófessor og Jón Már Héðinsson skólameistari.
Frétt af www.ma.is |
https://www.akureyri.is/is/frettir/fundur-i-menntasmidjunni-fyrir-konur-af-erlendum-uppruna | Fundur í Menntasmiðjunni fyrir konur af erlendum uppruna
Í kvöld kl. 20 hittast konur af erlendum uppruna búsettar á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu í Menntasmiðjunni, Glerárgötu 28, 3. hæð. Fulltrúi frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna kemur á fundinn og kynnir samtökin sem voru stofnuð 20. október sl. og er ætlað að gæta hagsmuna útlenskra kvenna á Íslandi. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/samningur-um-hreinlaetisvorur-og-pappir | Samningur um hreinlætisvörur og pappír
Gengið hefur verið frá samningi Mjallar-Friggjar hf. og Akureyrarbæjar sem kveður á um að næstu þrjú ár kaupa allar stofnanir bæjarfélagsins, deildir og fyrirtæki hreinlætisvörur og pappír (salernispappír, handþurrkur heimilisrúllur, einblöðunga o.fl.) af Mjöll-Frigg. Samningurinn var gerður að undangengnu opnu útboði og var tilboð Mjallar-Friggjar metið hagstæðast.
Í samningnum kemur fram að markmiðið með honum sé að einfalda og samþætta öll innkaup Akureyrarbæjar á hreinlætisvörum og pappír. Einnig að tryggja Akureyrarbæ stofnunum, deildum og fyrirtækjum hagstæðustu kjör og þjónustu hverju sinni. Þjónustuþátturinn er veigamikill hluti samningsins. Þjónustumenn Mjallar-Friggjar fara reglulega út í stofnanir og fyrirtæki bæjarins og fylla á samkvæmt fyrirfram ákveðnum lagerforsendum og dreifingaráætlun.
Þetta er fyrsti heildarsamningurinn sem Mjöll-Frigg gerir um sölu á hreinlætisvörum og pappír við sveitarfélög og segir Ásbjörn Einarsson, framkvæmdastjóri Mjallar-Friggjar, mikilvægt að vel takist til. ?Á næstu mánuðum munum við finna út hvernig þessari þjónustu verði sem skilvirkast og best háttað og í haust gerum við ráð fyrir að við verðum komnir niður á það verklag sem tryggir sem besta þjónustu,? segir Ásbjörn.
Á myndinni staðfesta samninginn Ásbjörn Einarsson, framkvæmdastjóri Mjallar-Friggjar, og Dan Jens Brynjarsson, sviðstjóri stjórnsýslusviðs Akureyrarbæjar. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/malthing-um-hannes-hafstein | Málþing um Hannes Hafstein
Hvað var svona merkilegt við Hannes Hafstein? Margir hafa spurt sig þessarar spurningar í umræðunni sem hefur spunnist í kringum heimastjórnarafmælið undanfarið og svarið ætti að fást á málþingi um Hannes sem haldið verður í Möðruvallakirkju laugardaginn 14. febrúar kl. 13.30.
Þar munu þrír fyrirlesarar fjalla um eftirfarandi:
Bjarni Guðleifsson, náttúrufræðingur á Möðruvöllum, fjallar um æsku Hannesar og æskuheimilið Möðruvelli sem á þeim tíma var stórbýli og amtsmannssetur.
Hvernig var æska Hannesar og hvernig var fyrir barn eins og Hannes að eiga heima á einu af höfuðsetrum Norðurlands á þessum tíma?
Björn Teitsson, kennari við Menntaskólann á Akureyri og fyrrum skólameistari Menntaskólans á Ísafirði, fjallar um aðdraganda heimastjórnarinnar og um heimastjórnarárin 1904-1918. Þessum árum fylgdu harðvítug átök og deildu stjórnmálamenn þessa tíma hart um ýmis mál. Má þar nefna valtýskuna, Símamálið og Sambandsmálið, en í öllum þessum málum reyndi mikið á Hannes Hafstein.
Páll Valsson, útgáfustjóri Máls og menningar, fjallar um skáldið Hannes. Hvað var það sem einkenndi Hannes sem skáld og hvað skýrir hinar miklu vinsældir sem hann hefur notið í gegnum tíðina?
Umræður verða á milli erinda og geta menn spurt fyrirlesarana ef þeir vilja. Fundarstjóri verður Þorlákur Axel Jónsson, kennari við Menntaskólann á Akureyri. Sóknarpresturinn, Sólveig Lára Guðmundsdóttir, býður kaffiveitingar í hléi.
Málþingið hefst kl. 13.30 og skipuleggjandi þess er Amtsbókasafnið á Akureyri í samvinnu við menningarmálanefnd Akureyrar og forsætisráðuneytið. Allir velkomnir! |
https://www.akureyri.is/is/frettir/ny-upplysingakerfi-fyrir-akureyrarbae | Ný upplýsingakerfi fyrir Akureyrarbæ
Á fundi í bæjarráði Akureyrar í síðustu viku var samþykkt að ganga til samninga við Ríkiskaup um umsjón með útboði á nýju fjárhags- og launakerfi ásamt tengdum hugbúnaðarkerfum fyrir Akureyrarbæ. Ljóst er að um umfangsmikið útboð verður að ræða þar sem Akureyrarbær er eitt af stærstu sveitarfélögum landsins. Fyrirhugað er að bjóða út á næstu vikum.
Í byrjun febrúar 2003 skipaði framkvæmdastjórn starfshóp til að vinna að þarfagreiningu, útboði og vali á fjárhags- og launakerfi og tengdum hugbúnaðarkerfum. Starfshópurinn sem skipaður var Jóni Braga Gunnarssyni, Höllu Margréti Tryggvadóttur og Gunnari Frímannssyni, ákvað að fá fyrirtækið KPMG til að vinna þarfagreiningu sem undirbúning fyrir útboð upplýsingakerfanna. Þessu verki er nú að ljúka undir stjórn Ottós Magnússonar hjá KPMG og gert er ráð fyrir að fullbúin skýrsla liggi fyrir undir lok mánaðarins. Sem áður segir hefur verið leitað til Ríkiskaupa sem hafa lýst sig reiðubúin að sjá um útboð kerfanna. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/hvad-er-umhverfisstjornun-fyrirtaekja | Hvað er umhverfisstjórnun fyrirtækja?
Á fimmtudag verður haldinn á Akureyri kynningarfundur um umhverfisstjórnun fyrirtækja og hinn svokallaða "umhverfisvita" (Miljöfyrtårn). Fundurinn er haldinn á Hótel KEA kl. 13-16 og er á vegum náttúruverndarnefndar Akureyrar.
Kynningarfundurinn verður settur af Kristjáni Þór Júlíussyni, bæjarstjóra, og síðan flytja stutt erindi þau Ragnhildur Helga Jónsdóttir frá UMÍS ehf., Þorleifur Þór Jónsson, Samtökum ferðaþjónustunnar, og María Hildur Maack, Nýorku. Þá munu fulltrúar þriggja akureyrskra aðila segja frá því sem er að gerast í þessum efnum hjá þeim.
Fyrirtæki, sem tekið hafa upp umhverfisstjórnun í einhverju formi, hafa náð betri árangri en önnur fyrirtæki, vegna lægri rekstrarkostnaðar og betri nýtingar fjármagns. Ein leið fyrir fyrirtækin í þessum efnum er að taka upp “Umhverfisvitann”, sem er norskt umhverfisvottunarkerfi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Ákveðið hefur verið að taka kerfið upp á Íslandi. Samkeppnisstaða fyrirtækja sem eru vakandi fyrir slíkum nýjungum er almennt betri en annarra, sjá bækling um 14 slík dæmi í Danmörku, sem dreift verður á fundinum. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/opid-hus-hja-fsa | Opið hús hjá FSA
Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri heldur áfram að fagna tvöföldu afmæli sínu og á sunnudag verður sjúkrahúsið sjálft, svo og Kristnesspítali, opið öllum almenningi. Opið verður á sjúkrahúsinu frá kl. 14-16 en á Kristnesi frá 15-17. Boðið verður upp á afmælistertu og kaffi fyrir gesti og starfsfólk. Íbúar Akureyrar og nágrennis eru hvattir til að koma í heimsókn og skoða þá góðu starfsemi sem þarna fer fram. Nánari dagskrá er svohljóðandi:
Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri
1873 ? 1953 ? 2003
Eftirfarandi deildir munu kynna þætti úr starfsemi sinni sunnudaginn 15. febrúar nk. kl. 14-16 og í Kristnesi kl. 15-17. Boðið upp á tertu og kaffi í kennslustofu á II hæð.
Kjallari I
Rannsóknadeild: Kynning á starfsemi deildarinnar m.a. blóðbanka og sýkladeild.
Lífeðlisfræðideildin: Opin.
Trúarleg þjónusta: Með kynningu.
Sjúkra- og iðjuþjálfun: Með kynningu.
1.hæð
Lyflækningadeildir: Á lyflækningadeild 2 verður kynning á starfsemi deildanna, skaðsemi reykinga og fræðsla um hjartasjúkdóma. Gestum boðið upp á mælingar á blóðþrýstingi.
Slysadeild: Kynnt neyðarmóttaka slysadeildar, greiningasveitin, áfallahjálp og fræðsla um slys. Veggspjöld með upplýsingum úr starfseminni.
Speglunardeild: Sýnd speglunartæki og starfsemin kynnt.
Myndgreiningadeild: Boðið upp á kynnisferð um deildina þar sem tækjabúnaður og valdar rannsóknir eru sýnd. Jafnframt er starfsemi deildarinnar kynnt.
Meinafræðideild: Sýndur undirbúningur á vefjasýnum fyrir skoðun og smásjárskoðun.
2. hæð
Handlækninga- og bæklunar-, HNE-og augndeildir: Veggspjöld um starfsemina og myndefni frá skurðaðgerðum ásamt kynningu á myndbandi og tölvum.
Skurð-, svæfinga,-, gjörgæslu- og sýkingavarnardeild: Verður með sýningu á vöknunarhluta gjörgæsludeildar. Gestum boðið upp á mælingar á blóðþrýstingi, súrefnismettun í blóði og kólesterólmælingu.
Bókasafn: Kynning á þeirri þjónustu sem veitt er þar.
3.hæð
Geðdeild: Kynning og á starfsemi og fer hún fram á göngudeild deildarinnar. Fræðsla m.a. um ljósameðferð.
Kvennadeild: Kynning á ýmsum lækningatækjum, myndband af fæðingu, tölfræði, kynning á getnaðarvörnum og fræðsla um kynsjúkdóma.
3.hæð nýbygging
Barnadeild: Veggspjöld með ljósmyndum og upplýsingum um starfsemi í tilefni af 30 ára afmæli deildarinnar.
Sel: Kynning á starfsemi Sels og aðstandendafélagi í mál og myndum. Harmoníkuleikur og kaffi og konfekt.
Kristnes: Endurhæfinga- og öldrunarlækninga deild (sjúkra- og iðjuþjálfun)- almenn kynning á starfsemi. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/rut-ithrottamadur-arsins-hja-thor | Rut íþróttamaður ársins hjá Þór
Rut Sigurðardóttir var kjörin íþróttamaður Þórs fyrir árið 2003 en útnefningin fór fram í hófi í Hamri í vikunni. Rut var jafnframt valin taekwondomaður ársins. Árni Þór Sigtryggsson hafnaði í öðru sæti í kjörinu en hann var valinn handknattleiksmaður ársins. Guðrún Soffía Viðarsdóttir var valin knattspyrnumaður ársins og Guðmundur Ævar Oddsson körfuknattleiksmaður ársins.
Rut átti mjög gott ár í fyrra í íþróttagrein sinni en hún tók þátt í ýmsum mótum hér heima og erlendis með góðum árangri. Rut var valin í landsliðið fyrir Norðurlandamótið í taekwondo í byrjun síðasta árs, þar sem hún sigraði í unglingaflokki, fyrst íslenskra kvenna, og var að auki valin besti keppandinn í unglingaflokki kvenna á mótinu.
Árni Þór, sem hafnaði í öðru sæti í kjörinu, er burðarás í handknattleiksliði Þórs og þá varð hann Evrópumeistari með landsliði Íslands leikmanna 18 ára og yngri sl. sumar.
Það er Ragnar Sverrisson, kaupmaður í JMJ, sem gefur verðlaunin sem veitt eru bestu leikmönnum einstakra deilda og hann gaf einnig á sínum tíma farandbikarinn sem afhentur er íþróttamanni Þórs.
Frétt af www.mbl.is. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/fjolgun-ibua-og-aukinn-rekstrarafgangur | Fjölgun íbúa og aukinn rekstrarafgangur
Í nýrri þriggja ára áætlun Akureyrarbæjar um rekstur, fjármál og framkvæmdir á árunum 2005-2007 er gert ráð fyrir umtalsverðri fjölgun íbúa og vaxandi rekstrarafgangi. Áframhald verður á þróttmikilli uppbyggingu á innviðum bæjarins og þjónustu við íbúana, ásamt því að á sama tíma verður traust fjámálaleg staða bæjarins styrkt enn frekar.
Í forsendunum er gengið út frá fjölgun íbúa um 200 á ári. Þróunin undanfarin ár hefur verið hagstæð fyrir bæjarfélagið þar sem fjölgun milli áranna 2002 og 2003 er 1,32% á Akureyri en landmeðaltal aðeins 0,79%. Útsvarsprósenta er óbreytt milli ára eða 13.03% og hækkun fasteignamats er áætluð 5% og er þar tekið mið af þróun fasteignaverðs á Akureyri undanfarin misseri.
Í heild, þ.e. fyrir A- og B-hluta gerir áætlunin ráð fyrir vaxandi rekstrarafgangi á tímabilinu, þrátt fyrir aukna þjónustu við bæjarbúa s.s. í skóla- og menningarmálum. Veltufé frá rekstri í A- og B-hluta er 3.768 millj. króna á tímabilinu. Frá A-hluta, þ.e. bæjarsjóði og A-hluta fyrirtækjum, er veltufé frá rekstri 1.374 millj. króna á tímabilinu og skilar það handbæru fé upp á tæpa 1100 millj. í lok árs 2007.
Ör uppbygging í stoðþjónustu bæjarfélagsins undanfarin ár hefur leitt til vaxandi lántöku en þrátt fyrir áframhald á þeirri uppbyggingu er nú ráðrúm til að lækka skuldir á næstu árum. Framkvæmdaáætlun áranna 2005 - 2007 gerir áfram ráð fyrir miklum fjárfestingum í grunngerð samfélagsins og er það í samræmi við málefnasamning meirihlutaflokkanna. Helst ber þar að nefna endurbætur á Brekkuskóla, nýjan leikskóla, ásamt hönnun Naustaskóla. Gerð er ráð fyrir byggingu menningarhúss ásamt því að uppbygging íþróttasvæða mun halda áfram í tengslum við væntanlegt landsmót UMFÍ.
Auk framangreindra verkefna er hefðbundin uppbygging í gatna- og fráveitukerfi bæjarins en þær framkvæmdir munu verða rúmar 1.170 millj. á tímabilinu, þegar tekið er tillit til tekna sem varið er beint í framkvæmdir.
Félagslegum íbúðum verðu fjölgað og má þar nefna 6 íbúðir fyrir fatlaða en heildar kostnaður vegna uppbyggingar á félagslegum leiguíbúðum er áætlaður um 150 millj. kr. Framkvæmdir Norðurorku munu halda áfram og miðast þær að því að tryggja bæjarfélaginu og nágrannasveitarfélögum nægjanlega orku til upphitunar húsnæðis.
Fjárhagsáætlun 2004 og þriggja ára áætlun 2005-2007 má nálgast hér. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/nytt-utlit-a-vef-haskolans | Nýtt útlit á vef háskólans
Opið hús var hjá Háskólanum á Akureyri um helgina og þar opnaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, meðal annars fyrir nýtt útlit á vef skólans. Deildir háskólans kynntu starfsemi sína og þeir fjölmörgu gestir sem lögðu leið sína á athafnasvæði háskólans gátu skoðað húsa- og tækjakost, og hlýtt á erindi á vegum deildanna.
Ljósmynd af Þorgerði Katrínu: www.mbl.is
Á heimasíðu Háskólans á Akureyri er meðal annars að finna forvitnilega töflu um fjölda nemenda í einstökum deildum:
Nemendafjöldi í deildum
Deild
Karlar
Konur
Samtals
Auðlindadeild
61
35
96
Félagsvísinda- og lagadeild
53
56
109
Heilbrigðisdeild
5
291
296
Kennaradeild
53
424
477
Rekstrar- og viðskiptadeild
128
211
339
Sjávarútvegsdeild
4
0
4
Upplýsingatæknideild
33
12
45
Samtals
337
1029
1366 |
https://www.akureyri.is/is/frettir/mannrettindi-vidskipti-og-hnattvaeding | Mannréttindi, viðskipti og hnattvæðing
Á lögfræðitorgi í dag veltir Páll Ásgeir Davíðsson upp spurningum um félagslega og mannréttindalega ábyrgð alþjóðafyrirtækja og varpar ljósi á þróun mála á liðnum árum.
Myndir af börnum við framleiðslu á íþróttavörum þekktra framleiðanda við ómannúðlegar aðstæður hafa á undanförnum árum haft áhrif á umræðu um mannréttindi. Myndirnar endurspegla meðal annars þau áhrif hnattvæðingar sem felast í gríðarlegum áhrifum alþjóðlegra stórfyrirtækja á velferð einstaklinga og efnahagskerfi einstakra ríkja og landsvæða. Áhrif alþjóðlegra stórfyrirtækja eru víða orðin meiri en þeirra ríkja sem hýsa starfsemi þeirra.
Fyrirlestur Páls verður haldinn í húsnæði háskólans að Þingvallastræti 23 í stofu 14 og hefst klukkan 16.30. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/verdmaeti-kea-i-kaldbaki-eykst | Verðmæti KEA í Kaldbaki eykst
Verðmæti hlutabréfa Kaupfélags Eyfirðinga í Kaldbaki hefur aukist um nærri hálfan milljarð króna frá áramótum en KEA á 27% hlut í Kaldbaki. Stjórn KEA hefur verið boðuð til fundar í dag. Þar verður meðal annars rætt um tilboð sem félaginu hefur borist í hlutabréfin.
Helstu eignir Kaldbaks eru hlutabréf í Samherja og Tryggingamiðstöðinni. Baugur keypti 15% hlut í Kaldbaki á síðasta ári. Þá lýsti Jóhannes Jónsson, stjórnarformaður Baugs, því yfir að fyrirtæki hans hefði áhuga á stærri hlut í Kaldbaki enda fýsilegur fjárfestingarkostur.
Frétt af www.ruv.is |
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyri-a-vetrarhatid-i-reykjavik | Akureyri á Vetrarhátíð í Reykjavík
Listamenn frá Akureyri verða þátttakendur í viðamikilli dagskrá Vetrarhátíðar í Reykjavík sem sett verður í dag. Leikfélag Akureyrar sýnir atriði úr "Draumalandinu" í Ingólfsnausti á opnunarkvöldinu kl. 20.40. Sýningin verður svo frumsýnd í Samkomuhúsinu 6. mars nk. um leið og Samkomuhúsið verður opnað aftur eftir gagngerar breytingar. Aðalheiður S. Eysteinsdóttir opnar sýninguna "Álftir" við Reykjavíkurtjörn í kvöld kl. 19.45. Þá heldur hljómsveitin Mór, sem útsetur og leikur íslenk þjóðlög, tónleika í Ingólfsnausti á laugardaginn kl. 15.00. Á sama stað verða skíðasvæði á Norðurlandi kynnt alla helgina og í kvöld verður boðið þar upp á Norðlenska osta.
Hljómsveitin Mór heldur tónleika í Ingólfsnausti á laugardag.
Dagskrá Vetrarhátíðarinnar í heild er að finna á heimasíðu Reykjavíkurborgar www.reykjavik.is |
https://www.akureyri.is/is/frettir/till-ad-breytingum-a-deiliskipulagi-i-afangi-naustahverfi | Till. að breytingum á deiliskipulagi: I. áfangi Naustahverfis, Íbúðarsvæði við Mýrarveg
Akureyrarbær auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga 2 tillögur að breytingum á deiliskipulagi:
1 Íbúðarsvæði við Mýrarveg
Gerð er tillaga um að bæta við einni lóð fyrir 5 hæða fjölbýlishús norðan lóðarinnar nr. 113 við Mýrarveg. Í húsinu verði 15 íbúðir, ætlaðar eldri borgurum. Í kjallara hússins verði bílageymsla fyrir 15 bíla, en 7 stæði verði ofanjarðar.
Skoða uppdrátt (pdf - 580 k) ...
2 I. áfangi Naustahverfis
Tillaga er gerð um eftirtaldar breytingar á húsgerðum við Hólatún og Klettatún: Tveggja hæða raðhús F2 breytast í tveggja hæða raðhús G2, byggingarreitur einbýlishúss af K1-gerð er lengdur til vesturs, bindandi byggingarlínur fyrir K3 einbýlishús eru felldar út og í stað tvíbýlishúsa af H-gerð við Klettatún komi einbýlishús K4.
Skoða uppdrátt (jpg - 1160 k) ...
Tillögurnar ásamt fylgigögnum munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. til föstudagsins 2. apríl 2004, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér þær og gert við þær athugasemdir. Tillögurnar eru einnig birtar á heimasíðu Akureyrarbæjar: http://www.akureyri.is/ undir: Auglýsingar og umsóknir/Skipulagstillögur.
Frestur til að gera athugasemdir við tillögurnar rennur út kl. 1600 föstudaginn 2. apríl 2004 og skal athugasemdum skilað til Umhverfisdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við auglýsta tillögu innan þessa frests telst vera henni samþykkur.
Akureyri 20 febrúar 2002
Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/tru-og-sidur-i-sviptingum-samtimans | Trú og siður í sviptingum samtímans
Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, flutti í hádeginu í dag fyrirlestur fyrir nemendur og starfsfólk Háskólans á Akureyri í salnum í Þingvallastræti 23. Fyrirlesturinn bar heitið Trú og siður í sviptingum samtímans og fjallaði biskup um hlutverk kirkjunnar í nútímasamfélagi og ræddi m.a. um aðskilnað ríkis og kirkju.
www.unak.is |
https://www.akureyri.is/is/frettir/skidastadagangan-a-morgun | Skíðastaðagangan á morgun
Skíðastaðagangan verður í Hlíðarfjalli á morgun og hefst við Strýtu kl. 14. Gengnir verða 20, 10 og 5 km. Skíðastaðagangan er hluti Íslandsgöngunnar sem er skíðatrimm fyrir alla. Að göngunni lokinni er þátttakendum boðið í kaffi, súkkulaði og kökur í félagsheimili Þórs í Hamri. Þar fer fram verðlaunaafhending og allir fá viðurkenningarskjal um þátttökuna. Þeir sem enn hafa ekki skráð sig geta gert það í símum 462 2280 og 867 0235. Nánari upplýsingar eru á vefnum www.skidi.is/skidastadagangan.htm |
https://www.akureyri.is/is/frettir/ronja-raeningjadottir-i-freyvangi | Ronja ræningjadóttir í Freyvangi
Freyvangsleikhúsið frumsýnir Ronju ræningjadóttur eftir sögu Astrid Lindgren á morgun. Ronja elst upp í Matthíasarborg hjá Lovísu, Matthíasi og ræningjunum hans. Þegar hún verður nógu gömul til að fara út í skóginn þarf hún að takast á við alls kyns hættur, grádverga, rassálfa og skógarnornir. Og eftir að hún hittir Birki Borkason og fær að vita um Borkaræningjanna, verður Matthías að segja henni hvað ræningi er í raun og veru. Bráðfjörugt leikrit fyrir alla fjölskylduna, stútfullt af skemmtilegum söngvum.
Leikstjóri er Oddur Bjarni Þorkelsson og tónlistarstjóri er Hjálmar Brynjólfsson. Frumsýning verður á morgun kl. 16 og 2. sýning sunnudaginn 22. Febrúar kl. 15. Eftir það verða sýningar á laugardögum og sunnudögum klukkan 15. Miðapantanir í síma 463 1195 milli kl. 16 og 18 virka daga og milli kl. 11 og 13 um helgar. Heimasíða Freyvangsleikhússins er www.freyvangur.net. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/snobbarar-verja-titilinn | Snobbarar verja titilinn
Akureyrarfélagið Snobbararnir bar sigur úr býtum í karlaflokki á öldungamóti Þórs í körfubolta á laugardag. Heldri dömur í Íþróttafélag stúdenta Reykjavík hafði sigur í kvennaflokki keppninar en þetta var fyrsta skiptið sem konur taka þátt í mótinu. Þessi stórmerka keppni misungra öldunga var haldin í fyrsta sinn árið 2000 og hafa Snobbararnir ætíð borið sigur úr býtum þrátt fyrir að hart hafi verið að þeim sótt. Í úrslitaleik Snobbara og a-liðs Skotfélagsins leit lengi vel út fyrir að nýtt félag fengi nafn sitt á fót verðlaunabikarsins en þegar líða tók á seinni hálfleik náðu Snobbararnir vopnum sínum og höfðu betur í lokin. Körfuboltaliðin sem þátt tóku í mótinu komu víðsvegar að af landinu og hefur þeim fjölgað frá ári til árs. Liðin í karlaflokki voru Skotfélagið a- og b-lið, Synir lands og vona, Snobbarar, Dvergar, Kempurnar, 59 (stundakennarar og læknar), Sandgerði, Molduxar og Höttur. Í kvennaflokki tóku þátt auk sigurvegaranna Trillur, Rauðhettur og Valkyrjur.
Bræðurnir Eiríkur og Jóhann Sigurðssynir, sem eiga frumkvæði að mótshaldinu, voru heiðraðir sérstaklega að keppni lokinni og þeim þakkað þetta frábæra framtak. Að verðlaunaafhendingu lokinni var farið í óvissuferð og síðan var dansað á Oddvitanum fram eftir nóttu. Var það mál karla og kvenna að vel hefði tekist til með mótshaldið í alla staði og lofuð allir endurkomu að ári. Ætla má að um 100 manns hafi verið í bænum þessa helgina í tengslum við mótið.
Konur tóku þátt í mótinu í fyrsta sinn en ekki síðasta. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/strandhogg-i-reykjavik | Strandhögg í Reykjavík
Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar stendur fyrir morgunverðarfundi á Grand Hótel í Reykjavík í fyrramálið þar sem kynnt verður rekstrarumhverfi fyrirtækja á Eyjafjarðarsvæðinu, aðgengi að áhættufjármagni og fjárfestingartækifæri.
Iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir setur fundinn en að því loknu ber Þorsteinn M. Jónsson, forstjóri Vífilfells, saman starfssemi fyrirtækis síns í Reykjavík og á Akureyri. Þá mun Sigurður Sigurgeirsson, útibússtjóri Landsbankans á Akureyri, ræða um rekstrarumhverfi fyrirtækja og sóknarfæri næstu ára. Því næst flytur Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, erindi um vöxt háskólans og þann stuðning sem hann veitir sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum á Norðurlandi. Að því loknu fjallar Helgi Aðalsteinsson, sjóðsstjóri hjá Íslenskum verðbréfum, um aðgengi að áhættu og Nýsköpunarfjármagni á svæðinu og að lokum lýkur Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri fundinum með erindi um þá aðstöðu sem bærinn býður rekstraraðilum upp á.
Tilgangur fundarins er að kynna fyrir fjárfestum og forsvarsmönnum fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu þau tækifæri sem felast í fjárfestingum og staðsetningu fyrirtækja á Eyjafjarðarsvæðinu. Fundarstjórn verður í höndum Svanhildar Hólm Valsdóttur, dagskrárgerðarmanns Kastljóssins. Gestum fundarins verður boðið upp á morgunverðarhlaðborð þeim að kostnaðarlausu. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/1100-thatttakendur-a-godamotunum | 1.100 þátttakendur á Goðamótunum
Fyrsta Goðamót ársins í knattspyrnu verður um helgina á Akureyri og keppa að þessu sinni stúlkur í 3., 4. og 5. flokki víðs vegar af landinu. Flautað verður til leiks í Boganum á föstudag. Unglingaráð knattspyrnudeildar Þórs hleypti mótaröð þessari af stokkunum í fyrravetur, fyrir yngstu flokka drengja. Prýðilega þótti takast til með Goðamótin, eins og þau voru strax nefnd ? enda unnið að þessu skemmtilega verkefni í samvinnu við og með stuðningi Norðlenska sem framleiðir Goðavörur. Nú er sem sagt komið að framhaldinu og fullvíst má telja að mótin hafi fest sig í sessi til frambúðar. Goðamótin verða raunar þrjú í vetur, fyrir 5. og 6. flokk drengja eins og í fyrra og nú bætist við mót fyrir 3., 4. og 5. flokk stúlkna sem verður það fyrsta í röðinni eins og áður segir.
Keppni hefst í hvert skipti kl. 15 á föstudegi og lýkur síðdegis á sunnudegi. Hálfum mánuði eftir stúlknamótið verður komið að 5. flokki drengja, það mót verður 12. til 14. mars og 6. flokkur rekur lestina, 26. til 28. mars.
Ljóst er að þátttaka verður mjög góð í ár og keppendur alls rúmlega 1.100. Þegar er nánast orðið fullbókað í tvö fyrstu mótin en eitthvað enn laust í það síðasta í lok mars. Keppendur eru flestir af Norðurlandi en í fyrra tóku einnig þátt nokkur lið af Austurlandi og höfuðborgarsvæðinu og svo er einnig nú. Fjölnismenn úr Grafarvogi verða líklega fjölmennastir aðkomumanna að þessu sinni. Þeir verða um 100 í 5. flokki og a.m.k. 50 í 6. flokki, auk þess sem Fjölnir sendir einnig stúlknalið til keppni, eins og HK í Kópavogi. Vitað er af fjölda foreldra sem kemur með börnunum til Akureyrar í tilefni Goðamótanna þannig að ljóst er að samtals fjölgar í bænum um nokkur þúsund manns þessar þrjár helgar. Enda leggja Þórsarar áherslu á að hér sé ekki einvörðungu um knattspyrnumót að ræða, heldur Ævintýrahelgi fjölskyldunnar á Akureyri ? þar sem foreldrar og systkini unga knattspyrnufólksins geta, auk þess að fylgjast með leikjunum, notið þess besta sem höfuðstaður Norðurlands hefur upp á að bjóða, t.d. er mælt með heimsókn í Vetraríþróttamiðstöð Íslands í Hlíðarfjalli, ferð í listasöfn eða leikhús og á einhvern þeirra afbragðs veitingastaða sem er að finna í bænum.
Á Goðamótinu eru 7 leikmenn í hverju liði og keppt í A, B, C og D liði. Þess má geta að þátttökugjald er aðeins kr. 5.000 og innifalið í því er m.a. keppnisgjaldið, gisting, morgunmatur á laugardag og sunnudag, kvöldmatur föstudag og laugardag, grill á sunnudeginum fyrir brottför, aðgangur að sundlaug og glaðningur frá styrktaraðila. Á laugardagskvöldinu er ætíð haldin kvöldvaka.
Þórsarar voru að sumra mati fullgestrisnir á fyrsta mótinu í fyrra en þeir sigruðu þá í keppni A, B, C og D-liða. Hér eru það nokkrir liðsmenn 5. flokks A sem fagna sigrinum.
Allir keppendur Goðamótanna í fyrra fengju að smakka á hinum fræga Brynjuís og svo verður að sjálfsögðu einnig í ár. Þórsarar bjóða öllum í Brynju! Hér eru það nokkrir KA-menn sem gæða sér á ísnum góða í fyrravetur.
Allir keppendur Goðamótanna í fyrra fór einnig í heimsókn í Nonnahús og kynntust þar sögu Jóns Sveinssonar. Þessir KS-ingar voru hressir við styttuna af þessum þekkta Akureyringi. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/skringilega-klaett-folk | Skringilega klætt fólk
Skringilega klædd börn á öllum aldri hafa flykkst um götur Akureyrar í dag. Tilefnið er að sjálfsögðu öskudagurinn og tilgangurinn að syngja út nammi í verslunum og þjónustufyrirtækjum. Meðfylgjandi myndir voru teknar af krökkum sem komu til að syngja í Ráðhúsi Akureyrarbæjar og þáðu sælgæti fyrir. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/afmaelissyningar-a-punktinum | Afmælissýningar á Punktinum
Punkturinn á Akureyri varð 10 ára nú fyrir skömmu. Vegna þessara tímamóta verða haldnar sýningar sem sýna þversnið af því sem unnið hefur verið á Punktinum á þessum árum. Fyrsta sýningin opnaði á afmælisdaginn en sýningarnar verða 10 í allt og enda á jólasýningunni. Önnur sýningin, Húsgögn og útsaumur, verður opnuð á morgun, fimmtudaginn 26. febrúar, og stendur hún yfir til 25. mars. Í tilefni af opnun hennar mun Jóhann Ingimarsson, Nói, tala um húsgögn kl. 16 og boðið verður upp á refilsaumsnámskeið og einnig er stefnt að því að fá kennara til að vera með námskeið í húsgagnaviðgerðum.
Nánar um sýningarnar og námskeiðin er að finna á heimasíðu Punktsins www.punkturinn.akureyri.is |
https://www.akureyri.is/is/frettir/vel-heppnad-strandhogg-i-reykjavik | Vel heppnað strandhögg í Reykjavík
Almenn bjartsýni ríkti á morgunverðarfundi sem Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hélt í Reykjavík í gær undir yfirskriftinni Strandhögg í Reykjavík. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra hóf fundinn og fjallaði um Eyjafjarðarsvæðið sem með bættum samgöngum væri nú orðið eitt atvinnusvæði. Stjórnvöld hefði sett sér það markmið að styrkja þetta svæði á næstu árum sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Vonaðist Valgerður til að svæðið myndi telja 25.000-30.000 manns áður en allt of langt liði en nú eru um 22.000 íbúar í Eyjafirði.
Þorsteinn M. Jónsson forstjóri Vífilfells þakkaði kærlega boðið á fundinn og sagðist hann hafa beðið lengi eftir því að lýsa opinberlega ánægju sinni með að hafa atvinnustarfsemi á Akureyri og hve gott væri að reka fyrirtæki þar. Það sem Þorsteini fannst standa upp úr varðandi starfsemina á Akureyri væri hve lítil starfsmannavelta væri á staðnum, góður starfsandi, fjölbreytt þekking og hve metnaður starfsmanna væri mikill, sem er ekki endilega gefið. Akureyri hentaði einnig vel sem dreifistöð fyrir Norður- og Austurland þar sem um 15% af sölu Vífilfells færi fram. Þó nefndi hann flutningskostnað sem neikvæðan þátt í að hafa starfsemi fyrir norðan og taldi hann að stytting leiðarinnar milli Reykjavíkur og Akureyrar myndi skipta miklu máli fyrir svæðið sem og hugsanlega opinberar aðgerðir sem myndu minnka flutningskostnað.
Sigurður Sigurgeirsson útibústjóri Landsbankans á Akureyri fór yfir atvinnuskiptingu á svæðinu og bar saman við höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina. Í máli hans kom fram að mjög erfitt er að finna tölur í hagskýrslum um Eyjafjörð þar sem svæðið er flokkað í hagtölum með norðausturkjördæmi. Sigurður birti einnig niðurstöður úr lítilli könnun sem hann hafði gert með tölvupósti og sent á félaga sína úr atvinnulífinu þar sem spurt var um styrkleika og veikleika Eyjafjarðarsvæðisins. Kom í ljós að stöðugt og vel menntað vinnuafl er það sem er efst á blaði varðandi kostina, helstu vaxtabroddana telja menn tengjast Háskólanum á Akureyri og þeim greinum sem þar eru kenndar. Helsti ókosturinn eru fjarlægð frá mörkuðum. Sigurður nefndi einnig að það væri merkilegt að á meðan sjávarútvegurinn er úti á landi þá eru nánast öll opinber störf tengd honum á höfuðborgarsvæðinu.
Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri fjallaði um uppbyggingu skólans á síðastliðnum árum en fjölgun nemenda á síðasta ári var um 40%. Mikil uppbygging á sér stað innan háskólans og stofnana hans og það sem hæst ber þessa dagana er stofnun líftækninets sem á að vinna að hagnýtum rannsóknum á ýmsum sviðum líftæknis.
Helgi Aðalsteinsson sjóðsstjóri hjá Íslenskum Verðbréfum fjallaði um aðgengi að nýsköpunarfjármagni í norðausturkjördæmi. Kom fram í máli hans að á svæðinu eru starfræktir fimm nýsköpunarsjóðir og vildi Helgi meina að hvergi á landinu væri jafn mikið framboð af áhættufjármagni og á þessu svæði. Sjóðirnir hafa nóg af fjármunum en bíða hreinlega bara eftir góðum hugmyndum.
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri Akureyrar lauk fundinum með erindi um möguleika svæðisins og þá þjónustu sem bærinn býður rekstraraðilum upp á og þá sérstaklega samninga bæjarins við ný fyrirtæki. Einnig nefndi hann að Akureyri væri eitt fjölskylduvænasta svæði landsins þar sem þjónusta við íbúa er eins og hún gerist best. Þessi þættir skipta vitanlega miklu máli í umhverfi fyrirtækjanna á svæðinu til að laða til sín hæft fólk. Kristján nefndi hve mikið óhagræði væri af því að engar opinberar hagtölur væru til fyrir Eyjafjörð en í hagskýrslum er svæðið skilgreint með öllu norðausturkjördæmi, eins og áður sagði, sem væri bæði stórt og fjölbreytt. Nauðsynlegt er að hefja á ný tölfræðivinnslu fyrir Eyjafjarðarsvæðið þar sem samanburður á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni er nánast marklaus fyrir Akureyri þar sem staðurinn á lítið sameiginlegt með dreifbýlustu svæðum landsins.
Miklar umræður mynduðust á fundinum og þá sérstaklega um eignaraðild fyrirtækja á svæðinu en Akureyringar höfðu það orð á sér að vera neikvæðir gagnvart viðskiptum við aðra en heimamenn. Menn voru sammála um að þetta sjónarmið væri á hröðu undanhaldi enda mikil breyting orðið á bænum sem er orðinn mun alþjóðlegri en áður var.
Fundarstjórn var í höndum Svanhildar Hólm Valsdóttur.
Frétt af www.afe.is. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/sjalfstyrkingarnamskeid-fyrir-born-og-unglinga | Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga
Vímulaus æska/Foreldrahús í samstarfi við félagssvið Akureyrarbæjar hafa gert með sér samning um að bjóða upp á sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga á Akureyri. Umsjón með námskeiðunum hefur Stefanía Elísabet Hallbjörnsdóttir, félagsráðgjafi. Námskeiðin eru fyrir unglinga á aldrinum 13-15 ára. Hvert námskeið er 10 skipti og kennt einu sinni í viku. Fyrsta námskeiðið verður haldið í Glerárkirkju og byrjar 11. mars nk. og er fyrir 13-14 ára stúlkur. Fjöldi þátttakenda á hverju námskeiði verður átta.
Markmiðið með námskeiðinu er að efla:
Sjálfstraust
Þekkingu á tilfinningum
Félagsleg tengsl
Samskiptahæfni
Sjálfsþekkingu
Allar nánari upplýsingar og skráning eru hjá Stefaníu í síma 893 6164 milli 17 og 19 virka daga. Einnig má senda tölvupóst á netfangið stefania@akmennt.is.
Að auki má leita upplýsinga á heimsíðu samtakanna www.foreldrahus.is.
Fulltrúar Vímulausrar æsku/Foreldrahúss og félagssviðs Akureyrarbæjar að lokinni undirritun samningsins. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/fleiri-skemmtiferdaskip | Fleiri skemmtiferðaskip
Ljóst er að fleiri skemmtiferðaskip koma til Akureyrar næsta sumar en nokkru sinni áður. Sumarið 2003 komu 45 skip sem samtals voru um 935.000 BT en nú hafa 53 skip tilkynnt komu sína og eru þau samtals hátt í 1300.000 BT. Búast má við að farþegar með þessum skipum verði rúmlega 30.000.
Frétt af vef Akureyrarhafnar, www.port.is. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/ka-bikarmeistarar-i-handbolta | KA bikarmeistarar í handbolta
KA vann stórsigur í úrslitum bikarkeppninnar í handbolta gegn Fram á laugardag með 31 marki gegn 23. Á heimasíðu félagsins segir orðrétt: "Það var mikil spenna í Laugardalshöll í gær þegar KA menn léku í úrslitum bikarkeppninnar gegn Fram. Það var jafnt á með liðununum fyrstu 10 mínúturnar en KA menn náðu síðan yfirhöndinni í leiknum og leiddu í leikhléi 12-10. Í síðari hálfleik stungu okkar menn Frammara gjörsamlega af og unnu stórsigur 31-23.
Arnór Atlason átti enn einn stórleikinn í vetur og skoraði 13 mörk. Frammarar höfðu sagt fyrir leikinn að þeir ætluðu að stöðva drenginn en það var alveg sama hvað þeir reyndu þeim varð ekkert ágengt í þeim efnum. Andrius Stelmokas stóð svo sannarlega fyrir sínu og skoraði 7 mörk. Sævar Árnason kom einnig mjög sterkur inn í síðari hálfleik sem og Ingólfur Axelsson. Fyrirliðinn Jónatan Magnússon stjórnaði liðinu af stakri prýði og átti góðan leik. Hafþór Einarsson átti frábæran leik í markinu, varði 23 skot og átti stóran þátt í sigrinum.
KA menn voru gríðarlega vel stemmdir í leiknum og greinilegt að þjálfarinn hafði undirbúið leikmenn sína vel fyrir átökin. Liðsheildin var frábær og greinilegt frá fyrstu mínútu hversu hungraðir leikmenn okkar voru í að sigra. Leikmenn Fram reyndu margt til að komast inn í leikinn en okkar menn áttu alltaf svar við öllum þeirra aðgerðum. Sigurinn var sanngjarn og leikmenn KA miklum mun betri en leikmenn Fram á öllum sviðum. Fyrst og síðast var það auðvitað liðsheildin sem skóp sigurinn og vonandi að menn taki eins á því í næstu leikjum í úrvalsdeildinni.
Fjölmargir Akureyringar mættu í höllina til að styðja við bakið á strákunum. Enn og aftur sýndu gulir og glaðir hvers þeir eru megnugir og eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna. Fyrir hönd félagsins vil ég þakka þeim fyrir stuðninginn. Þið voruð frábær.
Mörk KA: Arnór 13, Andrius 7, Ingólfur 3, Sævar 3, Einar Logi 3, Árni Björn 1, Jónatan 1. Til hamingju með bikarinn KA menn."
Frétt af www.ka-sport.is
Og KA-menn gera það ekki endasleppt í handboltanum. Önnur frétt og ekki síðri af heimasíðu þeirra er þessi:
"Strákarnir í 2. flokki urðu í gærkvöld bikarmeistarar, þegar þeir lögðu Framara í úrslitaleik í Laugardalshöll. Leiknum lauk með sigri okkar manna 24-32 eftir að staðan hafð verið 11-18 i hálfleik KA í vil. Flokknum hefur gengið mjög vel í vetur, þeir eru efstir í A riðli Íslandsmótsins og líklegir sigurvegarar í riðli sínum. Hópurinn er firnasterkur. Í liðinu er að finna leikmenn eins og Einar Loga, Arnór, Árna Björn, Magnús Stef., Ingólf Axelss., og Stefán Guðnason markvörð en hann var einmitt kjörinn maður leiksins í kvöld. Stefán varði mjög vel og að sögn Reynis Stefánssonar þjálfara þá var sigurinn í raun og veru aldrei í hættu. KA leiddi allan leikinn og áttu Framarar litla möguleika gegn mjög sterkum KA mönnum.
Frábært að ná að klára helgina með þessum sigri. Það hefur án efa verið erfitt fyrir okkar stráka sem í gær hömpuðu SS-bikarnum að gíra sig upp í annan leik svo skömmu eftir góðan sigur. En þeir eru alvöru menn og sleppa ekki titli þegar hann er í boði." |
https://www.akureyri.is/is/frettir/stjornarskra-stjornmal-eda-logfraedi | Stjórnarskrá: Stjórnmál eða lögfræði?
Stjórnarskrá lýðveldisins hefur verið töluvert í umræðunni að undanförnu og sýnist sitt hverjum. Nú þegar sextíu ár eru liðin frá stofnun lýðveldisins hefur enn ekki tekist að endurskoða stjórnarskrána með þeim hætti sem lofað var í aðdraganda lýðveldistofnunarinnar. Í erindi sínu á Lögfræðitorgi ætlar Ágúst Þór Árnason að fjalla um þá hugmyndafræði sem liggur að baki því að ríki byggi stjórnskipan sína á sérstökum lagabálk sem vanalega er saminn og samþykktur með vandaðri hætti en önnur lög og kallaður er stjórnarskrá upp á íslensku (e. constitution, þ. Verfassung).
Ágúst Þór Árnason starfaði að undirbúningi stofnunar félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri frá júní 2002 og hefur verið verkefnastjóri við deildina frá haustinu 2003.
Fyrirlesturinn verður haldinn á þriðjudag kl. 16.30 í Þingvallastræti 23, stofu 24. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/menning-umgjord-umhyggja | Menning, umgjörð, umhyggja
Á föstudag verður haldið málþing á Hótel Kea um Evrópuverkefnið "Menning, umgjörð, umhyggja" sem nú er að ljúka en það hefur staðið yfir í rúmt ár. Jafnréttisáætlun Evrópusambandsins fjármagnaði verkefnið að stærstum hluta en Félagsmálaráðuneyti Íslands lagði fram 20% kostnaðar. Markmið verkefnisins var að skoða ólík samspil kynjahlutverka, menningar og siðvenja, laga og reglugerða, og hvernig þessir þættir hindra eða auka möguleika kvenna og karla til að vinna saman að uppeldi barna sinna. Sérstaklega var horft til fæðingar- og foreldraorlofsreglna og nýtingu mæðra og feðra á þeim réttindum sem í hverju landi bjóðast. Verkefnið samanstendur af tveimur meginhlutum. Annars vegar er það rannsóknarskýrsla sem byggir m.a. á viðtölum við unga foreldra og vinnuveitendur feðranna og hins vegar er það heimildarmynd sem einnig byggir á viðtölum við foreldra og vinnuveitendur.
Þátttakendur í verkefninu eru frá fjórum löndum; Spáni, Þýskalandi, Noregi og Íslandi. Jafnréttisstofa hefur leitt verkefnið fyrir hönd Íslands. Íslenskar samstarfsstofnanir voru Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum sem sá um rannsóknarþátt verkefnisins og Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri. Þá sáu Samver hf. og Margrét Jónasdóttir um gerð heimildarmyndar fyrir sjónvarp um sama efni.
Málþingið á Hótel Kea stendur frá kl. 13-17 og fjallar um verkefnið og niðurstöður þess.Þar mun Þorgerður Einarsdóttir, lektor frá Rannsóknarstofnun í kvenna og kynfræðum í Háskóla Íslands gera grein fyrir rannsóknarhluta verkefnisins. Erlendu þátttakendurnir munu jafnframt halda stutt erindi um stöðu þessara máli í sínu heimalandi. Málþinginu lýkur svo með frumsýningu valdra kafla úr heimildarmyndinni. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/songkeppni-ma-i-kvold | Söngkeppni MA í kvöld
Söngkeppni Menntaskólans á Akureyri verður haldin í skólanum kl. 20 í kvöld. Anna Katrín Guðbrandsdóttir sigraði í fyrra og sló síðan í gegn í Idol-keppninni. Það verður spennandi að sjá hver verður sigurvegari kvöldsins. Alls eru 23 atriði skráð til keppni og hafa æfingar staðið yfir undanfarna daga og fram á kvöld. Fimm manna hljómsveit leikur undir sönginn og fjöldi aukahljóðfæraleikara kemur við sögu. Að venju er mikið vandað til keppninnar og verður notað stórt og fullkomið hljóð- og ljósakerfi. Tæknimeistari er Andri Gunnarsson en annars hefur undirbúningur söngkeppninnar legið á herðum stjórnar MYMA og stjórnar HUGINS. Kynnar á söngkeppninni verða Elmar Geir Unnsteinsson og Jóhanna Vala Höskuldsdóttir. Dómarar eru Brynja Harðardóttir kennari og söngvararnir Vilhelm Anton Jónsson Naglbítur og Þórhildur Örvarsdóttir.
Frétt af www.ma.is. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/menningartengd-ferdathjonusta | Menningartengd ferðaþjónusta
Viðbyggingin við Amtsbókasafnið á Akureyri verður vígð á laugardag en á föstudag flytur arkitekt hússins, Guðmundur Jónsson, erindi við Háskólann á Akureyri en hann hefur sérhæft sig í byggingum á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu.
Menningartengd ferðaþjónusta er hugtak sem heyrist æ oftar þegar fjallað er um framtíð ferðamennsku á Íslandi og möguleika ferðamanna til að kynnast íslenskri sögu og menningu. Guðmundur Jónsson arkitekt í Osló hefur sérhæft sig í byggingum fyrir menningartengda ferðaþjónustu og hafa byggingar eftir teikningum hans risið víða í Noregi og aðrar eru í undirbúningi.
Í erindi sínu kynnir Guðmundur helstu verk sín sem falla undir hugtakið „menningartengd ferðaþjónusta". Þau eru þjóðgarðsmiðstöðin á Harðangursheiði (Hardangervidda Nasjonalparksenter), Norska fjarðarmiðstöðin í Geirangursfirði (Norsk Fjordsenter í Geiranger), Systurskipið í Rørvik (Søsterskipet í Rørvik) og Norveg sjávarmenningarmiðstöðin í Rørvik (Norveg kystkultursenter í Rørvik). Hann hannaði líka og setti upp fjölmiðlunarsýningar í þessum byggingum.
Guðmundur hefur einnig unnið að fjölda fjölmiðlunarsýninga fyrir aðrar menningarbyggingar, svo sem Noregssögusýninguna og Ólympíusýninguna í Lillehammer. Í erindi sínu mun Guðmundur gera grein fyrir rekstrarfyrirkomulagi áðurnefndra menningarmiðstöðva en þær hafa haft umtalsverð samfélagsleg áhrif í viðkomandi sveitarfélögum og valdið verulegri uppsveiflu í ferðamennsku. Hann mun einnig fjalla um íslensk verkefni á þessu sviði eins og Geysissýninguna, Víkingaskálann sem fyrirhugað er að byggja í Ytri-Njarðvík og hugmyndir að menningarmiðstöðinni Hjálmakletti í Borgarnesi.
Laugardaginn 6. mars verður viðbygging Amtsbókasafnsins á Akureyri formlega vígð en húsið er byggt á verðlaunateikningu Guðmundar. Fer vel á því að fyrsta opinbera byggingin sem rís á Íslandi eftir Guðmund skuli vera á Akureyri sem er fæðingarbær hans. Guðmundur Jónsson útskrifaðist frá arkitektaskólanum í Osló 1981. Hann lét fyrst verulega að sér kveða þegar hann bar sigur úr bítum í Norrænni samkeppni um tónlistarhús í Reykjavík árið 1986. Guðmundur hefur hlotið yfir 40 verðlaun og viðurkenningar í samkeppni um byggingarlist þar á meðal byggingarlistarverðlaunin í Noregi ásamt Carl Michael Egers Legat. Guðmundur hlaut menningarverðlaun DV 1987. Myndir af verkum Guðmundar hafa verið birtar í fjölda bóka og tímarita víðs vegar um heim. Hann hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum bæði á Íslandi og erlendis. Guðmundur er prófdómari við arkitektaskólana í Osló og í Þrándheimi, þar sem hann heldur reglulega fyrirlestra. Auk þess hefur hann haldið gestafyrirlestra við arkitektaskóla víða um lönd.
Erindið flytur Guðmundur kl. 16.15 á föstudag í húsnæði Háskólans á Akureyri að Þingvallastræti 23 í stofu 14. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/menningarvitinn-i-listagilinu | Menningarvitinn í Listagilinu
Nýtt umhverfislistaverk eftir Finnboga Pétursson var sett upp á þak Listasafnsins fyrir helgi og ræst með formlegum hætti á sunnudagskvöld. Verkið gengur undir heitinu "Menningarvitinn" og sendir frá sér ljósgeisla í spíral upp frá safninu til himins eftir að rökkva tekur. Verður eflaust þónokkurt sjónarspil að sjá vitann lýsa í gegnum næturhimininn og kannski ekki síst í snjókomu sem allt skíðafólk er nú orðið langeygt eftir.
Tölvuteikning Finnboga Péturssonar af "Menningarvitanum" á þaki Listasafnsins á Akureyri.
Unnið að uppsetningu vitans síðasta föstudagskvöld. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/tillogur-ad-breytingu-a-adalskipulagi-og-deiliskipulagi-i | Tillögur að breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi: I. áfangi Naustahverfis - Dvalarheimilið Hlíð og nágrenni
Akureyrarbær auglýsir hér með skv. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga eftirtalda tillögu að breytingu á aðalskipulagi, og skv. 25. og 26. gr. sömu laga eftirtaldar tillögur að deiliskipulagi/breytingu á deiliskipulagi:
Dvalarheimilið Hlíð og nágrenni
Um er að ræða breyttar tillögur að deiliskipulagi og breytingu á aðalskipulagi í framhaldi af tillögum sem auglýstar voru 17. desember 2003.
Breytt tillaga um breytingu á aðalskipulagi felur í sér að austasti hluti núverandi lóðar Norðurorku við Mímisbraut breytist úr iðnaðarsvæði í stofnanasvæði. Áformað er að leggja þennan hluta lóðarinnar við lóð dvalarheimilisins Hlíðar og nýta hann undir bílastæði. Tillagan felur jafnframt í sér nýja gatnatengingu við Þórunnarstræti á núverandi lóðarmörkum Hlíðar og Norðurorku.
Breytt tillaga að deiliskipulagi varðar einkum fyrrgreinda lóð Norðurorku og lóð dvalarheimilisins Hlíðar. Auk framangreindra atriða gerir tillagan ráð fyrir því að byggð verði um 4.000 m2 nýbygging á allt að þremur hæðum til stækkunar á dvalarheimilinu, vestast og syðst á lóð þess.
Breytingar frá áður auglýstum tillögum eru einkum þær að fallið er frá hugmyndum um bílastæði vestast á lóð dvalarheimilisins eða neðanjarðar, og bílastæðum þess í stað komið fyrir austast á lóð Norðurorku, þar sem í fyrri tillögum var gert ráð fyrir íbúðarhúsi. Þá kemur ný tenging við Þórunnarstræti í stað áður áformaðrar tengingar dvalarheimilisins við Mímisbraut.
Skoða aðalskipulagstillögu (pdf, 318kb) ...
Skoða deiliskipulagstillögu (pdf, 765kb) ... Skýringaruppdrátt (pdf, 465kb) ...
I. áfangi Naustahverfis
Tillaga er gerð um breytingar á skilmálum, byggingarreitum og bindandi byggingarlínum fyrir fjölbýlishús sunnan Lækjartúns. Einnig um afmörkum byggingarreita fyrir sólskála við raðhús við Tjarnartún.
Skoða tillöguuppdrátt (pdf, 305kb) ...
Tillögurnar ásamt fylgigögnum munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. til föstudagsins 16. apríl 2004, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér þær og gert við þær athugasemdir. Tillögurnar eru einnig birtar hér á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Frestur til að gera athugasemdir við tillögurnar rennur út kl. 1600 föstudaginn 16. apríl 2004 og skal athugasemdum skilað til Umhverfisdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við auglýsta tillögu innan þessa frests telst vera henni samþykkur.
Akureyri 5. mars 2003,
Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/vigsla-a-laugardag | Vígsla á laugardag
Húsnæði Amtsbókasafnsins og Héraðsskjalasafnsins verður vígt í nýrri og endurbættri mynd á laugardag. Starfsfólk safnanna tekur á móti bæjarbúum og gestum þeirra á sunnudag og sýnir nýju húsakynnin. Guðmundur Jónsson arkitekt teiknaði nýja húsið og sagði í ummælum dómnefndar um tillögu hans meðal annars að með henni væri núverandi hús og nýbygging sameinuð í listræna heild. Saga Amtsbókasafnsins á Akureyri er um margt merkileg og því er þetta stór stund í lífi bæjarbúa. Meðal gesta við vígsluna á laugardag verða herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og frú Dorrit Moussaieff.
Að neðan gefur að líta myndir sem teknar voru í dag þegar iðnaðarmenn og starfsfólk voru í óðaönn að klára frágang húsnæðisins. Um sögu þess og nýframkvæmdirnar má lesa í skjali sem Fasteignir Akureyrarbæjar hafa sent frá sér.
Húsið verður öllum opið á sunnudag frá kl. 13 til 16. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/kata-ekkjan-i-ketilhusinu | Káta ekkjan í Ketilhúsinu
Leikhúskórinn á Akureyri frumsýnir óperettuna Kátu ekkjuna eftir Franz Lehár næsta föstudagskvöld í Ketilhúsinu. Verkið hefur notið mikilla vinsælda um allan heim og er oftlega nefnt "drottning óperettunnar". Leikstjóri á þessari sýningu er Ingunn Jensdóttir en með aðalhlutverk fara Alda Ingibergsdóttir, Steinþór Þráinsson, Aðalsteinn Bergdal, Ari Jóhann Sigurðsson og Bjarkey Sigurðardóttir.
Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Leikhúskórsins.
Alda Ingibergsdóttir og Steinþór Þráinsson í hlutverkum sínum. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/tonleikar-med-heru-bjork | Tónleikar með Heru Björk
Næsta sunnudag syngur Hera Björk Þórhallsdóttir syngja á tónleikum í Akureyrarkirkju. Tónleikarnir eru liður af Kirkjuviku í Akureyrarkirkju og hefjast kl. 20.30. Hera syngur fjölbreytta tónlist, gospel, spirituals og önnur dægurlög. Með Heru spila hljóðfæraleikararnir Jón Rafnsson á bassa, Vignir Stefánsson á píanó, Valmar Väljaots á fiðlu og Eyþór Ingi Jónsson á orgel. Einnig syngur Stúlknakór Akureyrarkirkju með á tónleikunum. Aðgangseyrir er 1000 kr fyrir fullorðna, 500 fyrir 12 ára og yngri. Allur ágóði af tónleikunum rennur til Hjálparstarfs kirkjunnar. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/fjolmenni-vid-vigslu-vidbyggingar | Fjölmenni við vígslu viðbyggingar
Viðbygging við gamla Amtsbókasafnshúsið við Brekkugötu, sem nú hýsir bæði Amtsbókasafn bæjarins og Héraðsskjalasafnið, var vígð að viðstöddu fjölmenni í dag. Fólk var í hátíðarskapi, enda stór dagur í menningarlífi bæjarbúa runninn upp því í kvöld var endurbætt Samkomuhús bæjarins einnig tekið í notkun að nýju með frumsýningu Draumalandsins eftir Ingibjörgu Hjartardóttur. Í ræðu sinni við vígslu viðbyggingar Amtsbókasafnsins sagði Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, meðal annars:
"Við höfum sett okkur það markmið að íbúar Stór-Akureyrarsvæðisins verði orðnir 30.000 fyrir árið 2020 og við vitum að hér gegnir Amtsbókasafnið lykilhlutverki. Því menntun, menning og þjónustuþættir sveitarfélaga ráða miklu um það hvar fólk vill búa. Bókasöfn hafa gjarnan verið kölluð háskóli alþýðunnar en í nútímasamfélagi þjóna þau ekki síður hlutverki eins konar akbrautar út á upplýsingahraðbrautina og opna íbúum sveitarfélagsins greiða leið að nútímanum. Um leið gera þau okkur kleift að standa betur að vígi í samkeppni um fólk við önnur sveitarfélög í veröldinni.
Þessi misserin er mikið rætt um virkjanir og verklegar stórframkvæmdir á Íslandi. Í því ljósi má líta svo á að Amtsbókasafnið á Akureyri sé andans orkuver. Það er ódýr og hreinn virkjunarkostur sem gerir hið besta úr þeim mannauði sem í þjóðinni býr. Bókasafnið eykur lífsgæðin, styrkir lýðræðið, eflir andann, bætir frítímann og er því í kraftmiklum samhljómi við kjörorð bæjarins ? Akureyri, öll lífsins gæði."
Jakob Björnsson, formaður bæjarráðs og framkvæmdaráðs, afhendir Aðalbjörgu Sigmarsdóttur, héraðsskjalaverði, og Hólmkatli Hreinssyni, forstöðumanni Amtsbókasafnsins, "lykil" að nýja húsnæðinu. Hvernig ætli skráin líti út?
Arkitekt hússins, Guðmundur Jónsson, ávarpar gesti.
Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, leggur hornstein að viðbyggingunni og nýtur við það aðstoðar ungrar Akureyrarmeyjar. Hólmkell Hreinsson fylgist spenntur með.
Ljósmyndir: Rúnar Þór Björnsson. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/draumalandid-frumsynt-i-betra-samkomuhusi | Draumalandið frumsýnt í betra Samkomuhúsi
Leikritið Draumalandið eftir Ingibjörgu Hjartardóttur verður frumsýnt í Samkomuhúsinu á Akureyri í kvöld en miklar framkvæmdir hafa verið við húsið síðustu mánuðina og er það nú sem nýtt. Á heimasíðu Leikfélags Akureyrar segir meðal annars um verkið:
Fimmta frumsýning vetrarins á Akureyri er nýtt íslenskt, sér norðlenskt samtímaverk sem ber heitið Draumalandið. Verkið er eftir Ingibjörgu Hjartardóttur og fjallar um sauðinn í okkur sjálfum og landið sem við erfum. Leiftrandi gálgahúmor í bland við alvöru lífsins. Verkið er sérstaklega samið fyrir leikara Leikfélags Akureyrar. Efinstökin standa okkur öllum nærri; erfðaréttur, heimótti, virkjanamál, landbúnaður, pólítík, nútími, kaldhæðni, yfirgangur, þrjóska, einstrengisháttur, trú, trúleysi og vangeta til sátta í bland við válynd veður og stórskorna náttúru landsins.
Sögusviðið er afdalur norður í landi þar sem þjóðfræg baráttumanneskja, ekkjan við ána berst fyrir lífi sauðkindarinnar og gamalla úreltra drauma á kostnað eigin heilsu. Dóttir hennar er nýkomin úr námi í ferðamálafræðum og hefur önnur áform um jörðina. Fyrrum sakamaður hefur ráðið sig sem vinnumann á bæinn og finnur nýjan tilgang í lífinu í gegnum sauðkindina og friðinn í sveitinni. Presturinn reynir að bæta upp gamlar syndir og breiða yfir allt og umbera allt með misjöfnum árangri.
Leikstjóri er Þorsteinn Bachmann og leikarar eru Hildigunnur Þráinsdóttir, Saga Jónsdóttir, Skúli Gautason og Þráinn Karlsson. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á Samkomuhúsinu og má lesa um þær og sögu hússins hér.
Borgarasalurinn á efri hæð Samkomuhússins. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/sogustadir-vid-horgarosa | Sögustaðir við Hörgárósa
Í þessum mánuði stendur Gásafélagið fyrir fjórum fræðslukvöldum í Deiglunni undir yfirskriftinni "Sögustaðir við Hörgárósa". Þeir staðir á svæðinu sem verða kynntir eru Gásakaupstaður, Skipalón, Hlaðir og Möðruvellir. Auk kynninga sérfræðinga á sögu staðanna, fornleifauppgreftri á svæðinu og bókmenntum tengdum svæðinu, verður upplestur úr verkum tengdum svæðinu og flutt tónlist.
Þátttöku þarf að tilkynna í síðasta lagi 10. mars nk. annaðhvort með tölvupósti til hring@mi.is eða í síma 462 4623 eða 848 1387. Einnig er hægt að skrá sig á námskeiðið hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, http://simey.is/. Gjald fyrir þátttöku á öllum fræðslukvöldunum er 2.000 kr. og greiðist við upphaf fyrsta fræðslukvöldsins. Innifalið í þátttökugjaldinu er öll dagskrá fræðslukvöldanna, upplýsingagögn, sem dreift verður og kaffihressing á hverju kvöldi.
Dagskrá:
Mánudagurinn 15. mars kl. 20.30:
1. Gásakaupstaður ? saga staðarins Björn Vigfússon, sagnfræðingur
2. Jarðfræði svæðisins o.fl. Náttúrufræðistofnun Ísl.,Ak.setur
Miðvikudagurinn 17. mars kl. 20.30:
3. Gásakaupstaður ? fornleifarannsóknir Guðrún Kristinsdóttir, safnstjóri Minjasafnsins á Ak.
4. Hugarflug um uppbyggingu svæðisins Ingólfur Ármannsson, fv. menningarfulltrúi Ak.
Mánudagurinn 22. mars kl. 20.30:
5. Hlaðir ? saga staðarins ? Ólöf og Steindór Bjarni Guðleifsson, náttúrufræðingur
6. Skipalón ? saga staðar og Þorsteins smiðs Ingólfur Ármannsson, fv. menningarfulltrúi
7. Nonnabækurnar ? tengsl við Möðruvelli og Skipalón Brynhildur Pétursdóttir, safnvörður Nonnasafns
Fimmtudagurinn 25. mars kl. 20.30:
8. Möðruvellir ? skólasetur - amtsmenn Sr. Gylfi Jónsson, Möðruvöllum
9. Munkarnir á Möðruvöllum, kirkju- og Sr. Sólveig Lára Guðmundsdóttir, sóknarprestur Möðruvöllum
klaustursaga og leikrit Davíðs |
https://www.akureyri.is/is/frettir/hundurinn-bassi-i-akureyrarkirkju | Hundurinn Bassi í Akureyrarkirkju
Þessa vikuna er Þorsteinn Haukur Þorsteinsson frá Tollgæslunni í Reykjavík ásamt fíkniefnaleitarhundinum Bassa á ferðinni um Norðurland. Í gær hittu þeir félagar fermingarbörn í Akureyrarkirkju en tilgangur heimsóknar þeirra er að fræða krakkana um skaðsemi vímugjafa og er það liður í forvarnastarfi Tollgæslunnar í Reykjavík og þjóðkirkjunnar en það hefur verið starfrækt síðan 1999. Þorsteinn brýnir fyrir fermingarbörnunum að aldrei sé hægt að klæða fíkniefni í sparibúning og þeim fylgi alltaf mannlegur harmleikur í einni eða annari mynd. Hann brýnir einnig fyrir börnunum að taka meðvitaða ákvörðun um að varðveita æskublóman og taka út þroska unglingsáranna án vímugjafa.
Fíkniefnaleitarhundurinn Bassi (Rockystars Black Odin Bassi) er 7 ára labrador hundur sem leikur stórt hlutverk í fræðslunni og sýnir listir sínar. Hann hefur fundið mikið magn fíkniefna sl. 7 ár en er nú komin á eftirlaun og starfar eingöngu við forvarnafræðsluna. Þorsteinn spilar og syngur fyrir börnin og stundinni lýkur með því að allir biðja saman "Faðir vor". Tollgæslan í Reykjavík gaf út margmiðlunardiskinn "nei takk" sem börnin fá að gjöf að fræðslunni lokinni. Þar er að finna mikið magn af alskonar uppýsingum og fróðleik um heilbrigt líferni og skaðsemi fíkniefna. Auk þess er á disknum að finna myndir af fíkniefnaleitahundum Tollembættisins og myndband með Bassa. Nú síðast en ekki síst er þar að finna getraun sem börnin geta tekið þátt í. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/uppselt-a-draumalandid | Uppselt á Draumalandið
Uppselt er á sýningu Leikfélags Akureyrar á Draumalandinu eftir Ingibjörgu Hjartardóttur á föstudagskvöld og örfá sæti laus á laugardagskvöld. Næstu sýningar eru föstudagskvöldið 19. og laugardagskvöldið 20. mars. Góð stemmning var á frumsýningunni um síðustu helgi og flestir leikhúsgestir létu sér vel líka verkið og frammistaða leikaranna.
Leikritið gerist í afdal á Norðurlandi þar sem sérlunduð ekkja býr ein með kindunum sínum á óðalsjörð. Hún fær ungan vinnumann á bæinn með aðstoð prestsins á staðnum sem jafnframt er þingmaður og ákafur virkjanasinni. Vinnumaðurinn og ekkjan ákveða fljótlega að byggja upp jörðina með samhentu átaki. Dóttirin kemur á staðinn eftir margra ára fjarveru með allt önnur áform og þá er fjandinn laus. Á að virkja eða byggja upp ferðaþjónustu og slátra öllu sem fyrir er? Hér er á ferðinni gráglettin átakasaga um samtímamál sem eru ofarlega á baugi í þjóðfélaginu. Verkið er glæpasaga úr samtímanum þar sem alvarlegustu glæpirnir eru ekki alltaf þeir augljósustu. Sitt sýnist hverjum en víst er að hver er sinnar gæfu smiður í hildarleik eiginhagsmuna.
Sýningin hefur vakið mikla athygli og umtal. Viðbrögð hafa verið á ýmsa vegu, enda viðkvæm mál til umfjöllunnar. Áhorfendur og gagnrýnendur eru ekki á einu máli. Víst er að engum ætti að leiðast á sýningunni sem er full af fjöri, frjóum hugmyndum og spennandi framvindu. Hér eru umsagnir nokkurra áhorfenda:
"Hlægilegt og dramatískt í senn." - Björn Þorláksson fréttamaður hjá Rúv.
"Mikið hlegið á frumsýningunni." - fréttir Stöðvar 2.
"Ég skemmti mér konunglega." - Helgi Teitur Helgason, lögmaður, Intrum.
"Mér fannst virkilega ánægjulegt. Verkið var vel sett upp og sérlega vel leikið. Öðruvísi en allt annað sem ég hef séð." - Heiðdís Norðfjörð, meðhjálpari í Akureyrarkirkju.
"Mögnuð undiralda í sýningunni. Ég varð fyrir miklum áhrifum." - Arna Valsdóttir, listakona.
Miðasalan er opin alla virka daga nema mánudaga frá kl. 13.00 -17.00 og fram að sýningu sýningardaga. Sími miðasölu er 462 1400. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/allar-heimsins-konur-a-akureyri | Allar heimsins konur á Akureyri
Laugardaginn 13. mars kl. 15 verður sýningin "Allar heimsins konur" opnuð í Listasafninu á Akureyri. Á sýningunni eru 176 verk eftir 176 konur frá jafnmörgum löndum, en það er næstum hvert einasta land í heiminum sem hlotið hefur viðurkenningu sem sjálfstætt ríki. Verkefnið er unnið í samvinnu við bandarísku listakonuna Claudiu DeMonte og er hugsað sem fagnaðarveisla ólíkra lífshátta og lífsreynslu fremur en einhliða ádeila á karlaveldið.
Í þeim heimi sem þetta hnattræna samfélag kvenna hefur dregið upp mynd af er oft fjallað um þversagnarkennt eðli nútíðarinnar. Á öðru skautinu á þessum hugmyndaheimi er konan áfram lífseig, óendanlega frjósöm gyðja sem skapar jörðina og íbúa hans. Á hinu er hún kúgað fórnarlamb ættfeðrasamfélags sem vill undiroka, nota og jafnvel drepa hana. Orðræðan í "Allar heimsins konur" er auðug sem og yfirgripsmikil og ýmist innan eða utan þessa viðmiðunarramma. Hér bregður m.a. fyrir einstæðri móður sem kennir blindum í Sambíu, leiðtoga kvenréttindahreyfingarinnar í Úsbekistan, afgangskri konu með blæju sem syrgir myrtan bróður sinn, íslenskri listakonu sem þarf að staðsetja í hinu stóra samhengi. Allar þessar konur skapa myndlist þar sem þær lifa hver og ein sínu lífi.
Jafnframt því sem sýningin veitir okkur sýn inn í hugarheim fjölda kvenna er henni ekki síst ætlað að varpa ljósi á fjölbreytileika okkar jarðarbúa. Sýningin er sérstaklega vel fallin til safnfræðslu fyrir skólafólk á öllum aldri, út frá ótal sjónarhornum, fyrir utan að bjóða upp á staðgóða kennsla eða upprifjun í landafræði. Hvert verk er ekki aðeins merkt höfundi sínum, heldur er þar einnig að finna skoðanir hans í flestum tilvikum og upplýsingar um viðkomandi land, ásamt heimsmynd og landakorti.
Í vestursal Listasafnsins getur hins vegar að líta innsetningu eftir Önnu Líndal, "Halló Akureyri!" Tjaldvagn í fullum skrúða tekur á móti áhorfendum, en andspnænis honum er til sýnis myndband af framkvæmdum á virkjunarsvæði Kárahnjúka þar sem hvín og syngur í díselvélum, stálhjólum og viðvörunarbjöllum. Innsetningin minnir á að það er iðnvæðingin í landinu sem getur af sér þær allsnægtir sem eru nauðsynlegar til að borgararnir geti keypt niðurfellanleg heimili á hjólum sem þeir ímynda sér að geri þeim kleift að flýja undan erli og streitu daglegs lífs á okkar tímum. Tjaldvagninn er fyrirheit um frelsi og heimilisleg þægindi, snertingu við náttúruna án óþæginda. Með því að stilla tjaldvagninum upp í safni virðist Anna Líndal vera að líkja saman afstöðu áhorfandans frammi fyrir "listinni" annars vegar og "náttúrunni" hins vegar; í þessu tilfelli virðist "náttúran" eigi síður hál og illhöndlanleg en "listin" og staða áhorfandans er samofin hlutverki hans eða hennar sem neytanda.
Bandaríska listakonan Claudia DeMonte og hugmyndasmiður sýningarinnar "Allar heimsins konur" heldur fyrirlestur í Deiglunni kl. 13.30 á laugardag og er aðgangur ókeypis. Sýningunum lýkur sunnudaginn 9. maí. Pokasjóður styrkir "Allar heimsins konur" og spyr áhorfendur spjörunum úr. Tólf glæsilega listaverk eru í verðlaun fyrir réttu svörin. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/haettu-adur-en-thu-byrjar | Hættu áður en þú byrjar
Alla næstu viku fer forvarna- og fíkniefnafræðslan "Hættu áður en þú byrjar" fram í grunnskólum Akureyrarbæjar. Fræðslan er ætluð nemendum í 9. og 10. bekk og foreldrum þeirra. Sýnd verður mynd sem endurspeglar íslenskan veruleika í fíkniefnaheiminum. Magnús Stefánsson skýrir frá reynslu sinni og sögu sem fíkniefnaneytanda og leggur mikla áherslu á það við unglingana að þeir geri strax upp hug sinn gagnvart fíkniefnum, hætti áður en þau byrji, og neiti að prófa fíkniefni verði þeim boðið slíkt. Auk þess er lögð áhersla á að foreldrar og börn þeirra ræði þessi mál sín á milli því er nauðsynlegt að foreldrar fái sömu fræðslu þótt nálgun efnisins sé ólík. Fræðsla fyrir foreldra barna í 9. bekk verður fimmtudagskvöldið 18. mars í Lundarskóla og byrjar kl. 20.00. Auk Magnúsar verða forvarnafulltrúi Akureyrarbæjar, lögreglan, og fulltrúar fjölskyldudeildar á staðnum og svara fyrirspurnum. Allir foreldrar barna í 9. bekk eru hvattir til að mæta og aðrir eru að sjálfsögðu velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Í ár verður bryddað upp á nýjung en það er "eftirfylgd" þar sem bæði foreldrar og nemendur í 10. bekk koma saman. Horft verður á áðurnefnda mynd og síðan ræðir Magnús við nemendur en forvarnafulltrúi og lögreglan við foreldra. Áherslan á fundunum er að börn á öllum aldri þurfi ást, hlýju, athygli, nærveru, leiðbeiningar og öryggi. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyri-vesturheimur | Akureyri - Vesturheimur
Á laugardag efna Þjóðræknisfélag Íslendinga og Vesturfarasetrið á Hofsósi til kynningarfundar um tengsl Íslendinga og afkomenda vesturfaranna í Deiglunni á Akureyri kl. 11. Fundurinn ber yfirskriftina Gagnkvæm tengsl Íslands og Vesturheims. Mikill áhugi hefur á síðustu árum vaknað á gagnkvæmum heimsóknum Íslendinga til Ameríku og fólks af íslensku bergi brotið frá Norður-Ameríku hingað. Þjóðræknisfélag Íslendinga og Vesturfarasetrið á Hofsósi hafa verið í broddi fylkingar um að hlúa að og auka þennan áhuga.
Á kynningarfundinum í Deiglunni gefst fólki kostur á að kynnast í hnotskurn fjölbreyttri og áhugaverðri starfsemi sem þessir aðilar rækja.
Dagskráin er í senn fræðandi og skemmtileg og er öllum ókeypis:
Almar Grímsson gerir grein fyrir starfi ÞFÍ
Valgeir Þorvaldsson ásamt Wincie Jóhannsdóttur frá Vesturfarasetrinu gera grein fyrir starfsemi setursins
Ásta Sól Kristjánsdóttir kynnir Snorraverkefnið (tilboð til ungs folks frá Íslandi til ferða og starsdvalar í vesturheimi og öfugt)
Jónas Þór gerir grein fyrir ferðum sem hann skipuleggur og stýrir til Norður-Ameríku ásamt kynningu á námskeiðum um landnám Íslendinga í vesturheimi, sem boðið hefur verið upp á í Reykjavík og unnt að fara með víðar um land
Kynning á kvikmynd Sveins Sveinssonar um landnám Ísæendinga í Norður-Dakota
Anna Sigga (Anna Sigríður Helgadóttir) syngur við píanóundirleik eins og henni er einni lagið
Borið verður upp á léttar veitingar og ljúfa stemmingu. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/mikid-um-ad-vera-i-vidilundi | Mikið um að vera í Víðilundi
Um áramótin voru gerðar breytingar á tilhögun tómstundatilboða bæjarins fyrir eldri borgara. Megininntak þessara breytinga er að í stað þess að allir geti komið hvenær sem er og fengið kennslu í handverki og leikfimi gegn ákveðnu mánaðargjaldi er nú boðið upp á þjónustu í tvenns konar formi. Annars vegar boðið upp á opna tíma þar sem fólk getur komið og unnið að sínum áhugamálum með takmarkaðri leiðsögn og er þessi þjónusta ókeypis. Hins vegar er boðið upp á fjölbreytt og mislöng námskeið þar sem námskeiðsgjald er 100 krónur á klukkustund. Verðinu er stillt mjög í hóf og þess má geta að það er til dæmis mun lægra en börn í grunnskólum greiða fyrir námskeið í félagsmiðstöðvum.
Markmið breytinganna eru í samræmi við stefnu Akureyrarbæjar í málefnum aldraðra sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili en þar er lögð áhersla á að bærinn skapi aðstöðu sem aldraðir geta nýtt til að sinna áhugamálum sínum og virkja sköpunargleði sína. Þjónustan skal miða að því að efla aldraða til sjálfshjálpar með það fyrir augum að viðhalda og efla sjálfstæði þeirra.
Breytingarnar hafa mælst misvel fyrir og hópur 67 notenda í Félags- og þjónustumiðstöðinni í Víðilundi skrifaði undir plagg þar sem breytingunum var mótmælt. Undirskriftunum var svo komið á framfæri við bæjarfulltrúa. Í framhaldinu tók félagsmálaráð breytingarnar til endurskoðunar og ákvað að auka skyldi við þau tilboð sem eru ókeypis, svokallaða opna tíma. Auk þess er lagt til að stofnað verði notendaráð viðskiptavina í Víðilundi til samráðs við stjórnendur. Vonir eru bundnar við að með notendaráðinu verði eldri borgarar sjálfir virkir þátttakendur í að móta þjónustuna og hún endurspegli betur þeirra óskir.
Meðal þeirra nýjunga sem boðið er upp á núna í Víðilundi er jóganámskeið og snyrtinámskeið. Hvort tveggja hefur verið mjög vel sótt. Ennfremur hafa notendur stofnað áhugahópa sem hittast til að vinna að sameiginlegum áhugamálum og njóta samvista. Spilamennska er ákaflega vinsæl og er svo vel sótt að stundum er allt fullt og spilað á 24 borðum.
Á síðasta ári sóttu um 450 eldri borgarar félags- og tómstundatilboð á vegum bæjarins en auk Víðilundar er starfsemi í Bjargi v/Bugðusíðu og í Félagsheimili eldri borgara við Lundargötu. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/born-og-notkun-netsins | Börn og notkun netsins
Annað kvöld kl. 20 verður haldin í Lundarskóla svokölluð SAFT-kynning um örugga netnotkun barna á vegum Heimili og skóla - landssamtaka foreldra - í samstarfi við Barnaheill og skóladeild Akureyrarbæjar.
Börnin okkar leita í sífellt auknum mæli inn á internetið í leit að afþreyingu og fræðslu en hvað eru þau raunverulega að gera á netinu? Hvaða tækifæri og hættur eru til staðar og hvernig getum við dregið úr áhættuhegðun barnanna? Hvernig getum við forðað börnunum okkar frá áhrifum skaðlegs efnis og varnað óheimila notkun persónuupplýsinga? Á kynningunni verður leitað svara við þessum spurningum og eru allir velkomnir sér að kostnaðarlausu. Nánari upplýsingar er að fá á skrifstofu Heimilis og skóla í síma 562 7475.
SAFT (Safety, Awareness, Facts and Tools) er evrópskt rannsóknar- og fræðsluverkefni um örugga netnotkun barna. Verkefnið er stutt af Safer Internet Action Plan áætlun Evrópusambandsins um öryggi á Netinu og eru sjö aðilar frá fimm löndum þátttakendur: Danmörk, Írland, Ísland, Noregur og Svíþjóð. Heimili og skóli ? landssamtök foreldra er aðili að samstarfshópnum fyrir hönd Íslands. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/hannes-hafstein-og-heimastjornararin-i-eyjafirdi | Hannes Hafstein og heimastjórnarárin í Eyjafirði
Á fimmtudag verður opnuð í Amtsbókasafninu á Akureyri sýning á munum og skjölum sem tengjast Hannesi Hafstein og heimastjórnarárunum í Eyjafirði. Halldór Blöndal, forseti Alþingis, opnar sýninguna og um kvöldið flytur Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, erindi um ævi Hannesar.
Sýningin verður opnuð kl. 17.30 á fimmtudag og verður hún opin á opnunartíma safnsins frá kl. 10-19 virka daga og 10-15 á laugardögum. Kl. 20.30 þetta sama kvöld flytur Guðjón Friðriksson erindi um ævi Hannesar, sem áður segir, en Guðjón er nú með í smíðum bók um ævi og störf Hannesar. Að loknu erindi Guðjóns verður opnað fyrir umræður og fyrirspurnir. Allir velkomnir. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/nytt-verklag-vid-baejarstjornarfundi | Nýtt verklag við bæjarstjórnarfundi
Í dag var haldinn blaðamannafundur í Ráðhúsi Akureyrarbæjar þar sem kynnt var nýtt verklag við bæjarstjórnarfundi í samræmi við breytta bæjarmálasamþykkt. Þessar breytingar fela meðal annars í sér að nefndir og embættismenn fá aukna heimild til að taka fullnaðarákvarðanir í ýmsum málum án staðfestingar bæjarstjórnar.
Forsaga málsins er sú að árið 2003 var gerð breyting á 44. grein sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 sem miðaði að því að taka af vafa um heimildir sveitarstjórnar til að framselja vald sitt til nefnda og annarra aðila innan stjórnsýslunnar.
Bæjarstjórn Akureyrar hefur fylgt þessum breytingum eftir með því að breyta bæjarmálasamþykkt sinni í grundvallaratriðum í þessa veru. Markmiðið með breytingunum er að auka hagræði og skilvirkni og hraða málsmeðferð í stjórnsýslunni, efla stefnumarkandi hlutverk bæjarstjórnar, gera fundi bæjarstjórnar skipulegri og umræður markvissari og færa starfshætti bæjarstjórnar og stjórnkerfis í átt til hins rafræna veruleika sem einkennir nútíma stjórnsýslu og samskipti. Afgreiðsluferill erinda til bæjarfélagsins verður einfaldari og afgreiðslutíminn styttri og þannig ætti þjónustan við íbúana að verða ennþá betri.
Fyrsti bæjarstjórnarfundurinn með þessu nýja sniði er haldinn í dag.
Frá blaðamannafundinum í dag. Fyrir svörum sitja Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, Þóra Ákadóttir, forseti bæjarstjórnar, og Jakob Björnsson, formaður bæjarráðs. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/snjorinn-breikkar-brosid | Snjórinn breikkar brosið
Snjóað hefur í Hlíðarfjalli í allan dag á meðan það hefur verið rigning eða hálfgerð hundslappadrífa í bænum. Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli, er að eigin sögn farinn að brosa út í bæði. Útlitið fyrir skíðafólk var orðið heldur dapurlegt en nú rætist úr.
Veðurspáin næstu daga gerir ráð fyrir kólnandi veðri og Guðmundur segist handviss um að það muni snjóa í fjallinu fram yfir helgi. Hann segir tímabært að óska fólki gleðilegra páska!
Frá Veðurstofu Íslands:
Á fimmtudag: Norðaustan og austan 10-15 m/s, en hægari um austanvert landið. Slydda eða snjókoma, en él norðan- og norðvestanlands. Frost 0 til 5 stig, en hiti 0 til 6 stig sunnan- og vestanlands.
Á föstudag og laugardag: Norðaustan og norðan 10-15 m/s, en hægari suðaustan- og austanlands. Snjókoma eða él um norðanvert landið og léttskýjað með köflum sunnantil, en líkur á éljum suðaustanlands. Kólnandi og frost 0 til 5 stig á laugardag.
Á sunnudag og mánudag: Norðlæg átt og él, en skýjað með köflum og þurrt sunnantil. Kalt í veðri.
www.vedur.is |
https://www.akureyri.is/is/frettir/er-barnid-thitt-ad-byrja-i-skola | Er barnið þitt að byrja í skóla?
Á fimmtudag og föstudag fer fram skráning 6 ára barna sem hefja grunnskólagöngu á Akureyri næsta haust og þá sömu daga verða foreldrar barna í 1. - 4. bekk sem ætla að nýta sér skólavistun næsta skólaár að skrá börn sín í þá þjónustu. Innritun 6 ára barna (fædd 1998) fer fram í grunnskólum bæjarins frá kl. 9 - 12 fimmtudaginn 18. mars og föstudaginn 19. mars en foreldrar sem ætla að nýta þjónustu skólavistunar fyrir börn sín geta gengið frá sínum málum með símtali við viðkomandi skóla eða skólavistun.
Sömu daga skal tilkynna flutning eldri nemenda milli skólasvæða innan Akureyrar, svo og flutning til og frá Akureyri, annaðhvort í viðkomandi skóla eða á Skóladeild Akureyrar í síma 460 1463.
Þar til nýr grunnskóli rís í Naustahverfi eiga nemendur sem þar búa skólasókn í Brekkuskóla. Þó verður þeim nemendum sem nú þegar eru í öðrum grunnskólum í bænum heimilt að vera þar áfram óski foreldrar eftir því. Nemendur búsettir í Klettaborg eiga skólasókn í Glerárskóla. Nýir nemendur sem búa í Vestursíðu eiga framvegis skólasókn í Síðuskóla.
Að neðan eru til þæginda símanúmer grunnskólanna og skólavistunar:
Brekkuskóli 462 2525 Skólavistun 462 2526
Giljaskóli 462 4820 Skólavistun 462 4825
Glerárskóli 461 2666 Skólavistun 461 1256
Lundarskóli 462 4888 Skólavistun 462 4560
Oddeyrarskóli 462 4999 Skólavistun 462 4997
Síðuskóli 462 2588 Skólavistun 461 3473 |
https://www.akureyri.is/is/frettir/sigurdur-lindal-kennir-vid-haskolann-a-akureyri | Sigurður Líndal kennir við Háskólann á Akureyri
Sigurður Líndal, prófessor emeritus og einn virtasti lögmaður landsins, hefur að undanförnu kennt við Félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri. Í dag heldur Sigurður erindi á Lögfræðitorgi um "Stjórnskipunarlega stöðu forseta Íslands" og gefst bæjarbúum þá tækifæri til að hlýða á mál fræðimannsins og kennarans og skiptast á skoðunum við hann um efni fyrirlestursins. Sigurður á ættir að rekja til Akureyrar en afi hans, Páll Jakob Eggertsson Briem, amtmaður og alþingismaður, hóf útgáfu fyrsta lögfræðitímarits landsins hér á Akureyri.
Í erindi sínu á Lögfræðitorgi Háskólans ætlar Sigurður að gera grein fyrir valdsviði forseta Íslands og stjórnskipunarlegri stöðu hans. Flestar, ef ekki allar, sjálfstæðar þjóðir hafa þjóðhöfðingja og ganga embætti þeirra undir ýmsum nöfnum. Staða þeirra og valdsvið er einnig með ólíkum hætti. Eins og umræðan undanfarið hefur berlega leitt í ljós ríkir ekki einhugur meðal íslensku þjóðarinnar um hvert skuli vera hlutverk forseta Íslands. Þeirri spurningu virðist ósvarað hvort embættið sé táknræn tignarstaða eða hafi tiltekið stjórnskipulegt hlutverk.
Fyrirlesturinn hefst kl. 16.30 í dag í húsnæði HA að Þingvallastræti 23, stofu 14. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/butur-af-ofurtogi-fra-baejarstjora | Bútur af ofurtógi frá bæjarstjóra
Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, sendi áhöfninni á Baldvin Þorsteinssyni EA-10 og öllu starfsfólki Samherja táknræna sendingu í dag með hamingjuóskum um giftusamlega björgun skipsins. Kortið er tryggilega krækt í bút af ofurtógi sem er að vísu aðeins grennra en það sem notað var við björgunarstörfin á Meðallandssandi í nótt. Kveðjan frá bæjarstjóra hljóðar svo orðrétt:
Kæru Samherjar!
Fyrir hönd bæjarstjórnar Akureyrar og bæjarbúa allra óska ég ykkur innilega til hamingju með glæsilega björgun Baldvins Þorsteinssonar EA-10 af strandstað. Útlitið var dökkt og því meiri er gleðin nú. Mest er um vert að áhöfn allri skyldi bjargað svo giftusamlega sem raun ber vitni en fögnuður okkar jókst enn frekar þegar skipið sjálft var heimt úr helju svartra sanda.
Megi baráttuþrek ykkar, elja og útsjónarsemi verða öðrum íbúum bæjarins til fyrirmyndar og eftirbreytni.
Með bestu kveðju,
Kristján Þór Júlíusson,
bæjarstjóri |
https://www.akureyri.is/is/frettir/i-nyju-ljosi-a-evropuari-fatladra | Í nýju ljósi á Evrópuári fatlaðra
Á föstudag verður haldið málþing í Ketilhúsinu á Akureyri um málefni fatlaðra sem tengjast lífi okkar allra á einn eða annan hátt. Aðgangur er ókeypis og málþingið er opið öllum sem áhuga hafa á málefnum fatlaðra. Skráning fer fram í síma 460 1000 og lýkur á morgun, 18. mars.
Dagskrá:
Kl. 13.00 Setning: Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri.
Fyrirlestrar:
Atvinnumál fatlaðra: Breytinga er þörf. Kristján Valdimarsson, forstöðumaður Örva í Kópavogi og formaður samtaka um vinnu og verkþjálfun.
Starfsendurmenntun fatlaðra. Geirlaug G. Björnsdóttir hjá Félags- og skólaþjónustu Þingeyinga, Húsavík.
Menntunarframboð fatlaðra á Akureyri. Rögnvaldur Símonarson, umsjónarmaður starfsdeildar VMA og Lilja Sæmundsdóttir, deildarstjóri Fjölmenntar og kennari við VMA.
Starfsendurhæfing á Akureyri: Hvað má bæta? Ólöf E. Leifsdóttir, iðjuþjálfi og forstöðumaður Plastiðjunnar Bjargs-Iðjulundar á Akureyri.
Skemmtiatriði
Starfshópavinna
Kaffi og meðlæti
Niðurstöður og tillögur kynntar, ásamt umræðum
16.30 Ráðstefnuslit
Ráðstefnustjóri: Karólína Gunnarsdóttir, þroskaþjálfi hjá Fjölskyldudeild Akureyrar. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/baldvin-thorsteinsson-kominn-a-flot | Baldvin Þorsteinsson kominn á flot
Norska dráttarskipinu Normand Mariner tókst að draga fjölveiðiskipið Baldvin Þorsteinsson EA af strandstað í Meðallandsfjöru upp úr klukkan tvö í nótt. Vel gekk að draga skipið og mun dráttarskipið nú vera á leið með Baldvin í togi til Eskifjarðar. Áður en togað var í Baldvin í nótt höfðu skipverjarnir um borð dælt sjó og allri loðnu í hafið til að létta skipið. Baldvin náðist á flot áður en háflóð varð.
Frétt af www.mbl.is |
https://www.akureyri.is/is/frettir/frumsyningar-a-honk-og-sweeney-todd | Frumsýningar á Honk! og Sweeney Todd
Það er mikið um að vera í leiklistarlífi framhaldsskólanemenda á Akureyri. Á morgun frumsýnir leikfélag Verkmenntaskólans verkið Honk! Og miðvikudaginn í næstu viku frumsýnir Menntaskólinn spennutryllinn Sweeney Todd.
Leikfélag Verkmenntaskólans á Akureyri frumsýnir í kvöld söngleikinn Honk! Í Gryfju skólans. Verkið er eftir George Stiles og Anthony Drewe og byggir á ævintýrinu um Ljóta andarungann eftir H.C.Andersen. Öll hlutverk eru í höndum nemanda Verkmenntaskólans en hljómsveitin samanstendur bæði af nemendum og kennurum skólans. Verkið fékk fádæma viðtökur í Borgarleikhúsinu og ekki er við öðru að búast nú. Sýningin inniheldur frábæran húmor og yfir 15 söngatriði og ætti því að höfða jafnt til barna og fullorðinna. Miðapantanir eru í síma 895-6754 en miðar verða einnig seldir í skólanum sýningardagana milli klukkan 16 og 17. Miðaverð er kr. 1800 fyrir fullorðna, kr. 1000 fyrir börn og kr. 1500 fyrir Þórdunufélaga. Sýningar verða sem hér segir:
Föstudagur 19. mars: Frumsýning kl. 20.00
Sunnudagur 21. mars kl. 17.00
Fimmtudagur 25. mars kl. 19.00
Föstudagur 26. mars kl. 19.00
Laugardagur 27. mars kl. 13.00
Þriðjudagur 30. mars kl. 19.00
Miðvikudagur 31. mars kl. 19.00
Fimmtudagur 1. apríl kl. 19.00
Leikstjóri er María Sigurðardóttir og Arnór Vilbergsson sér um tónlist.
Leikfélag Menntaskólans er enn að vinna að uppsetningunni á Sweeney Todd og gerði talsverðar breytingar á sal sínum, Kvosinni, til að líkja eftir 19. aldar hverfi í miðborg Lundúna. Leikmyndahönnuður er Þórarinn Blöndal en fjórir tréiðnnemar úr Verkmenntaskólanum hafa unnið að leikmyndinni ásamt stjórn leikfélagsins. Leikstjóri er Skúli Gautason. Frumsýning verður miðvikudaginn 24. mars og verða sýningar fram að páskaleyfi nemenda. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/skyrsla-um-hlutfall-rikisstarfa-i-eyjafirdi | Skýrsla um hlutfall ríkisstarfa í Eyjafirði
Á hádegisverðarfundi Atvinnuþróunarfélags Eyjarfjarðar í gær kynnti Halldór R. Gíslason samanburðarskýrslu AFE um hlutfall ríkisstarfa í Eyjafirði og á höfuðborgarsvæðinu. Á eftir voru afar líflegar umræður um málefnið. Auk Halldórs töluðu Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, Grétar Þór Eyþórsson, framkvæmdarstjóri Byggðarrannsóknarstofnunar Íslands auk alþingismannanna Birkis J. Jónssonar og Einars Más Sigurðsonar.
Skýrslan staðfestir að störf á vegum ríkisins eru hlutfallslega mun fleiri á höfuðborgarsvæðinu, sem best sést af því að munur á íbúafjölda er rúmlega áttfaldur á meðan hann er 11 faldur þegar kemur að störfunum. Ef takast ætti að jafna þennan mun þá þyrfti opinberum störfum að fjölga um 387 í Eyjafirði eða fækka um 3.180 á höfuðborgarsvæðinu. Ef tekið er nærtækt viðmið úr skýrslunni þyrfti að fjölga störfum á Eyjafjarðarsvæðinu um sem næmi tveimur stofnunum á borð við Háskólann á Akureyri til að jafna þennan mun.
Nánar má lesa um fundinn og innihald skýrslunar á heimasíðu Atvinnuþróunarfélags Eyjarfjarðar www.afe.is |
https://www.akureyri.is/is/frettir/af-hverju-fa-thau-ekki-vinnu | Af hverju fá þau ekki vinnu?
Ráðstefnan Af hverju fá þau ekki vinnu? um stöðu ungs fólks í atvinnuleit verður haldin þriðjudaginn, 23. mars næstkomandi á Hótel KEA. Markmið ráðstefnunnar er að ræða stöðu 16 til 24 ára atvinnuleitenda og möguleika þeirra á að finna nám og störf við hæfi. Fundurinn hefst klukkan 13.00 og stendur til 16.45. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Dagskráin verður sem hér segir:
13:00-13:05 Ráðstefnan sett.
13:05-14:30 Helena Karlsdóttir, forstöðumaður SVM: "Þróun og staða atvinnuleysis".
Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA: "Hvers vegna hætta nemendur í framhaldsskóla?"
Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri: "Akureyrarbær og störf ungs fólks".
Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri: "Atvinnulíf á krossgötum - hvernig eru þarfir atvinnulífsins að þróast?"
Erindi ungs atvinnuleitanda um reynslu hans af atvinnuleit
14:30-14:45 Kaffihlé
14:45-15:15 Bryndís Símonardóttir, fjölskylduráðgjafi Hlíðarskóla "Tenging grunnskóla og atvinnulífs?"
15:15-16:15 Þorbjörn Jensson, forstöðumaður kynnir Fjölsmiðjuna í Kópavogi.
16:15-16:45 Ásgeir Magnússon, forstöðumaður Skrifstofu atvinnulífsins á Norðurlandi:"Atvinnumálin í nútíð og framtíð- samantekt."
16:45 Ráðstefnuslit
Fundarstjóri: Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður svæðisráðs SVM
Ráðstefnudagur: 23. mars 2004
Fundarstaður: Hótel KEA
Fundartími: 13:00 - 16:45
Samstarfsaðilar: Svæðisvinnumiðlun (SVM), Akureyrarbær, Verkmenntaskólinn á Akureyri, stéttarfélögin í Eyjafirði
og Skrifstofa atvinnulífsins á Norðurlandi (SAN) |
https://www.akureyri.is/is/frettir/stora-upplestrarkeppnin-1 | Stóra upplestrarkeppnin
Lokahátíð Stóru upplestarkeppninnar í 7. bekk var haldin í Menntaskólanum á Akureyri fimmtudaginn 18. mars. Að venju var fjölmenni á hátíðinni, m.a. heiðraði bæjarstjórinn keppendur með viðveru sinni. Nemendur í Tónlistarskólanum á Akureyri fluttu tónlist og Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir, aðstoðarskólameistari Menntaskólans flutti ávarp.
Það voru 12 nemendur úr grunnskólunum Akureyrar sem lásu upp. Þeir lásu valda kafla úr Hjalta bókunum eftir Stefán Jónsson og ljóð eftir skáldkonuna Þuðríði Guðmundsdóttur. Að síðustu lásu þau upp ljóð að eigin vali.
Dómnefndin átti erfitt með að gera upp á milli þátttakenda en svo fór að í 3. sæti var Guðni Þór Björnsson úr Glerárskóla, í 2. sæti var Þuríður Helga Ingvarsdóttir úr Lundarskóla og í 1. sæti var Magnús Arturo Batista úr Síðuskóla.
Sparisjóður Norðlendinga gaf peningaverðlaun fyrir 3 efstu sætin. Kr. 15.000.- fyrir 1. sæti, kr. 10.000.- fyrir 2. sæti og kr. 5.000.- fyrir 3. sæti. Allir þátttakendur fengu bókina Ljósbrot - snjallyrði um gleði, ást og vináttu að gjöf frá Eddu- útgafa.
Hátíðin tóks í alla staði mjög vel og þátttakendur voru skólum sínum til mikils sóma.
Frá vinstri: Þuríður Helga Ingvarsdóttir úr Lundarskóla, Magnús Arturo Batista úr Síðuskóla og Guðni Þór Björnsson úr Glerárskóla. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/ungir-akureyringar-a-leid-til-japan | Ungir Akureyringar á leið til Japan
Tveir ungir Akureyringar fara á umhverfisþing ungs fólks í Japan næsta haust á vegum Akureyrarbæjar. Þórunn Edda Magnúsdóttir úr MA og Jón Helgi Sveinbjörnsson úr VMA voru valin úr hópi 19 umsækjenda en þau eru bæði á náttúrufræðibraut.
Akureyrarbær auglýsti í febrúar eftir ungmennum til að taka þátt í umhverfisþingi ungs fólks í Sapporo í Japan 2.-7. ágúst 2004. Nú hafa tvö ungmenni verið valin úr hópi 19 umsækjenda en það eru annarsvegar Jón Helgi Sveinbjörnsson úr VMA og hinsvegar Þórunn Edda Magnúsdóttir úr MA. Þau eru bæði nemendur á náttúrufræðibraut og taka þátt í verkefnum eða áföngum sem sérstaklega tengjast umhverfis-og vistfræði. Þórunn Edda og Jón Helgi munu verða í hópi ungs fólks víðs vegar af norðuslóðum heimsins sem munu fræðast og ræða um umhverfismál frá ýmsum hliðum.
Markmiðið með þinginu er að gefa ungmennum af norðlægum slóðum tækifæri til að hittast, ræða og deila reynslu sinni og upplýsingum hver frá sínu svæði og dýpka þannig skilning sinn á umhverfismálum. Megindagskrá þingsins í Sapporo verður dagana 3.-6. ágúst og ber yfirskriftina Tengsl umhverfis og manna. Umhverfisþingið er á vegum Northern Forum samtakanna sem Akureyrarbær er þátttakandi í. www.northernforum.org |
https://www.akureyri.is/is/frettir/unglist-2004-a-akureyri | Unglist 2004 á Akureyri
Listahátíðin Unglist hófst með með frumsýningu sönleiksins Honk! í gryfju VMA á föstudaginn í seinustu viku og stendur yfir til 28. mars næstkomandi. Hátíðin heldur áfram með myndlistarsýningu á Glerártorgi út Unglistarvikuna og fleiri áhugaverðum viðburðum. Vert er að minnast á bílskúrsbandakvöld í Húsinu í kvöld, mánudaginn 22. mars og Útþrá kynningu á náms- og starfsmöguleikum erlendis. Þar munu fulltrúar ýmissa félaga og stofnanna svo sem skiptinemasamtökin AFS, ungmennaskiptin AUS, Lýðháskólarnir, Nordjob og Stúdentaferðis svo einhverjir séu nefndir kynna starfsemi sína og svara spurningum. Áhugasamir ættu því ekki að láta þetta fram hjá sér fara og kíkja við í Húsinu á þriðjudaginn frá klukkan 16 til 18. Lokatónleikar Unglistar verða svo í Vélsmiðjunni fimmtudagskvöldið 25. mars þar sem hljómsveitin Douglas Wilson auk upphitunarhljómsveita spila fyrir gesti.
Nánar um Unglist 2004 má finna á heimasíðu Hússins www.husid-ak.is |
https://www.akureyri.is/is/frettir/frumsyningu-sweeney-todd-frestad | Frumsýningu Sweeney Todd frestað
Leikfélag Menntaskólans á Akureyri hefur tekið þá ákvörðun að fresta sýningum á spennutryllinum um morðóða rakarann Sweeney Todd fram yfir páska. Frumsýningin verður því fimmtudaginn 15. apríl en ekki á miðvikudag í þessari viku eins og fram kom hér á Akureyrarvefnum. Fyrirsjáanlegt var orðið að leikmyndin yrði síðar tilbúin en vonir stóðu til og leikarar þyrftu lengri tíma til að æfa sig á sviðinu tilbúnu.
Með hlutverk morðóða rakarans Sweeney Todd fer Ævar Þór Benediktsson, eins og áður hefur komið fram, og með önnur stór hlutverk fara Lilja Laufey Davíðsdóttir, Elmar Freyr Kristþórsson, María Guðrún Gunnlaugsdóttir og Andri Már Sigurðsson. Rúmlega 20 manns leika í sýningunni auk þess sem fjöldi nemenda skólans og annað gott fólk leggur hönd á plóg við að gera hana sem veglegasta. Leikstjóri er Skúli Gautason og höfundur sviðsmyndar Þórarinn Blöndal.
Sjá má nánari upplýsingar um uppfærsluna, leikendur og leikverkið sjálft á vefnum www.muninn.is/todd
Nánari upplýsingar, myndir o.s.frv. veitir Steinunn Rögnvaldsdóttir
22sro@ma.is
steinunnr@hotmail.com
GSM 8475601 |
https://www.akureyri.is/is/frettir/felagsvisindatorg-starfsvettvangur-skolasalfraedi | Félagsvísindatorg: Starfsvettvangur skólasálfræði
Skólasálfræði er með elstu greinum sálfræðinnar á Íslandi. Greinin hefur tekið breytingum og þróast samhliða samfélagsbreytingum og er talin jafn nauðsynleg nú og hún þótti á bernskudögum sínum í íslensku skólasamfélagi fyrir um hálfri öld. Í erindi sínu á Félagsvísindatorgi ræðir Sigrún Sveinbjörnsdóttir umfang skólasálfræðinnar í samfélagi samtímans og gerir nokkra grein fyrir þróun greinarinnar á undangengnum 30 árum. Sigrún mun meðal annars leitast við að svara því hvað skólasálfræðingurinn gerir, hvers kyns menntun liggi að baki starfinu og hverjir séu helstu samstarfsaðilar skólasálfræðingsins.
Sigrún Sveinbjörnsdóttir lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1966, BA prófi í uppeldisfræðum frá Gautaborgarháskóla árið 1972 og í sálfræði árið 1973 frá sama skóla. Embættisprófi í sálfræði með skólasálfræði sem sérsvið lauk Sigrún árið 1975 frá Gautaborgarháskóla. Árið 2001 lauk Sigrún doktorsprófi í sálfræði frá Melbourne, Ástralíu, en rannsóknarverkefni hennar fjallaði um líf og líðan unglinga. Sigrún hefur starfað sem sálfræðingur allt frá árinu 1976, meðal annars á þremur skólastigum (leik-, grunn-, og framhaldsskóla) og unnið með þroskaheftum. Auk þess hefur Sigrún veitt einstaklingum almenna sálfræðiráðgjöf og tekið að sér leiðsögn við fagmenn, einstaklinga og hópa. Sigrún er nú lektor við kennaradeild HA (frá árinu 2001), en sinnir sálfræðiráðgjöf að auki, þar með talin er sálfræðiráðgjöf við einn samþættan leik- og grunnskóla. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/innsyn-i-verold-fatlads-folks | Innsýn í veröld fatlaðs fólks
Á morgun gefst Akureyringum öllum kostur á að kynnast daglegu lífi og starfi fatlaðs fólks. Gefin verður innsýn í veröld þeirra með því að hafa opið hús hjá Hæfingarstöðinni við Skógarlund, Plastiðjunni Bjargi-Iðjulundi á Gleráreyrum, Lautinni við Þingvallastræti 32 og Fjölmennt við Hvammshlíð 6. Á öllum þessum stöðum fer fram margvíslegt og merkilegt starf þar sem fólk fær hæfingu, vinnur framleiðslustörf, nýtur kennslu og símenntunar.
Opið verður sem hér segir:
Fjölmennt við Hvammshlíð opið frá 9-12
Hæfingarstöðin við Skógarlund opið frá 13-16
Lautin við Þingvallastræti 32 opið frá 13-16
Plastiðjan Bjarg-Iðjulundur opið frá 13-16
Akureyringar eru hvattir til að koma í heimsókn, þiggja kaffisopa og kynnast því starfi sem fer fram á þessum stöðum. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/sumarstorf-fyrir-17-ara-og-eldri | Sumarstörf fyrir 17 ára og eldri
Auglýst hafa verið laus til umsóknar sumarstörf fyrir 17 ára og eldri hjá Akureyrarbæ og rennur umsóknarfrestur út 29. mars. Þær stofnanir og deildir sem um er að ræða eru: Framkvæmdamiðstöð, Sundlaug Akureyrar, leikskólar, gæsluvöllur, Sumarvistun fatlaðra á Árholti, Strætisvagnar Akureyrar, Akureyrarvöllur, almenningssalerni, ræstingar, mötuneyti, ritara- og skrifstofustörf. Sumar stofnanir og deildir hafa hærri aldursmörk en 17 ára.
Umsóknareyðublöð fyrir störfin fást í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar að Geislagötu 9 og skal skila þeim aftur þangað. Einnig er hægt að sækja um hér á heimasíðunni og nálgast reglur og nánari upplýsingar um þessi sumarstörf með því að smella hér.
Í fyrra sóttu 687 um sumarstörf fyrir 17 ára og eldri og fengum 281 starf. Í töflunni hér að neðan má sjá hvernig þróunin hefur verið frá árinu 2001.
2003
2002
2001
Heildarumsóknir
687
650
519
Fengu starf
286
310
328
Fengu synjun
364
302
113
Höfnuðu starfi
37
38
78
Athygli vekur að árið 2003 var fleirum synjað um sumarstarf en hafði verið áður allt frá árinu 1994. Þarna er þó einkum um að ræða fólk sem er orðið 21 árs eða eldra. Sumarið 2003 störfuðu einnig 96 manns í sex vikur í sérstökum átaksverkefnum á vegum bæjarins en sótt var um styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að mæta kostnaði vegna þeirra. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/vel-heppnud-radstefna-um-stodu-ungs-folks-i-atvinnuleit | Vel heppnuð ráðstefna um stöðu ungs fólks í atvinnuleit
Í gær var haldin ráðstefna á Hótel KEA um stöðu 16 til 24 ára atvinnuleitenda og möguleika þeirra á að finna nám og störf við hæfi. Á ráðstefnuna mættu um 70 manns og var hún vel heppnuð í alla staði. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Helena Karlsdóttir forstöðumaður Svæðismiðlunar Norðurlands eystra en hún fjallaði um þróun og stöðu atvinnuleysis auk þess sem hún hvatti til meiri aðkomu atvinnulífsins. Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA talaði um af hverju nemendur hættu í framhaldsskóla og minnti á framboð VMA til iðnnáms og almennra deilda. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri fór yfir störf ungs fólks hjá Akureyrarbæ og aðgerðir gegn atvinnuleysi, Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdarstjóri fræddi viðstadda um hvernig þarfir atvinnulífsins hafa þróast í sambandi við alþjóðavæðinguna og Bryndis Símonardóttir, fjölskylduráðgjafi í Hlíðarskóla fjallaði um tengingu grunnskóla og atvinnulífsins og reynslu Hlíðarskóla af góðri samvinnu við atvinnulíf bæjarins. Þvínæst kynnti Þorbjörn Jensson Fjölsmiðjuna í Kópavogi sem er nokkurskonar vinnusetur fyrir ungt fólk sem hefur ekki enn fundið sína hillu í samfélaginu. Loks tók Ásgeir Magnússon forstöðumaður Skrifstofu atvinnulífsins á Norðurlandi atvinnumálin í nútíð og framtíð saman og minnti á mikilvægi þess að auka framboð á störfum því á Akureyri væru ágætir námsmöguleikar fyrir mismunandi hópa en störfin vantaði. Athygli vöktu erindi ungs fólks í atvinnuleit á ráðstefnunni því þau Gunnar Rafn Pálsson, Sigrún María Olsen og Kristjana Margrét Svansdóttir voru sammála um að það að vera atvinnulaus bryti viðkomandi niður og ekki síst sú staðreynd að atvinnurekendur svöruðu ekki einu sinnu umsóknum þeirra. Þau töldu einnig mikilvægt að vinna gegn fordómum gagnvart fólki í atvinnuleit. Að fundinum stóð Svæðismiðlun Norðurlands eystra, Akureyrarbær, Skrifstofa atvinnulífsins á Norðurlandi, STAK, Eining-Iðja og félag verslunar og skrifstofufólks á Akureyri. Fundarstjóri var Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður svæðisráðs SVM.
Erindi af ráðstefnunni er að finna á heimasíðu Vinnumálastofnun undir Norðurland eystra www.vinnumalastofnun.is en einnig er vert að skoða heimasíðu Fjölsmiðjunnar www.fjolsmidjan.is |
https://www.akureyri.is/is/frettir/skidi-og-skoli | Skíði og skóli
Þessa dagana er verið að prófa þá nýjung að bjóða öllum nemendum í 5. bekk grunnskólanna á Akureyri upp á skíðakennslu í Hlíðarfjalli þeim að kostnaðarlausu. Kennslan byrjaði mánudaginn 22. mars og stendur til 31. mars. Tekið er á móti nemendum úr tveimur skólum í einu eða 80?90 nemendum, en í allt er hér um að ræða 259 nemendur sem er skipt niður á þrjá daga, mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga. Kennt er í 2 klst. í einu og munu nemendur fara tvisvar í fjallið þetta árið. Til stóð að hver hópur færi þrisvar sinnum þetta árið en vegna aðstæðna varð að fækka skiptunum. Farið er með rútum frá skólunum kl. 13.00 og komið aftur kl. 16.00. Þetta er samvinnuverkefni Skíðastaða í Hlíðarfjalli og Skóladeildar og grunnskólanna, þannig að Skíðastaðir leggja til búnað fyrir þá sem þess þurfa, lyftugjöld og skíðakennara, en skóladeild greiðir kostnað vegna skíðakennara og sér um skipulagningu ferða í samvinnu við skólana.
Það hefur komið á óvart hversu hátt hlutfall þessara nemenda eiga ekki búnað eða tæp 43% og að tæplega helmingur (50%) nemendanna eru byrjendur. Markmiðið með þessu átaki er að kynna öllum nemendum í ákveðnum árgangi skíðaíþróttina og þá aðstöðu sem er í Hlíðarfjalli til að stunda holla útiveru. Eins og með kynningu á skautaíþróttinni í 3. og 4. bekk fyrir áramót er verið að reyna að fá sem flesta til þess að nýta sér þá góðu aðstöðu sem er á Akureyri til þess að stunda vetraríþróttir auk þess sem þessari kennslu á að sinna í íþróttakennslu samkv. Aðalnámskrá. Á þetta verkefni er litið sem tilraun nú, en hugmyndir eru uppi um að færa þessa kennslu inn í stundaskrá og skipulag skólanna á næsta ári og helst að gera hana að föstum lið í kennslu nemenda í grunnskólum Akureyrar, enda Akureyri Vetraríþróttamiðstöð Íslands. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/hofundur-eldad-med-elvis-til-akureyrar | Höfundur Eldað með Elvis til Akureyrar
Höfundur leikritsins Eldað með Elvis er væntanlegur til Akureyrar og verður viðstaddur hátíðarsýningu á leikriti sínu í Samkomuhúsinu 7. apríl nk. Lee Hall er þekktastur er fyrir leikritin Eldað með Elvis og kvikmyndina Billy Elliot sem hann hlaut Óskarstilnefningu og tvenn Bafta-verðlaun fyrir. Leikrit hans hafa einnig hlotið fjölmörg verðlaun víða um heim. Hann kemur hingað til lands ásamt eiginkonu sinni, kvikmyndaleikstjóranum Beeban Kidron, og tveimur börnum. Eldað með Elvis er samstarfsverkefni Loftkastalans og Leikfélags Akureyrar og kemur leikskáldið til landsins í þeirra boði. Eldað með Elvis hefur verið sýnt í Loftkastalanum frá áramótum við miklar vinsældir og hrifningu gagnrýnenda. Íslenska uppsetningin er flutt í þýðingu Hallgríms Helgasonar og leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Sýningar verða á Akureyri frá 2. apríl og fram að páskum. Þegar sýningum lýkur á Akureyri halda sýningar áfram í Loftkastalanum í Reykjavík.
Verk Lee Hall þykja áleitin og ögrandi þó gamansemin sé aldrei langt undan. Eldað með Elvis er grátbroslegt leikrit, þar sem gamansemin ræður ríkjum á yfirborðinu en undir niðri er þungur undirtónn. Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, getur staðfest að leikhúsið hefur tryggt sér sýningarréttinn á öðru leikriti Lee Hall sem nefnist Spoonface Steinberg. Eiginkona Lee Hall, Beeban Kidron, kemur með eiginmanni sínum til Íslands. Hún er þekktur kvikmyndaleikstjóri og er um þessar mundir að leggja lokahönd á kvikmynd sína um Bridget Jones Diary - The Edge of Reason, en þar eru Reene Zellweger, Hugh Grant og Colin Firth í aðalhlutverkum. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/hatidin-skidasveifla-og-snjoalog-hefst-i-kvold | Hátíðin Skíðasveifla og snjóalög hefst í kvöld
Fyrir og um páska verður boðið upp á hátíðina Skíðasveifla og snjóalög á Akureyri. Hátíðin samanstendur af 8 fjölbreyttum tónlistarviðburðum og einu mögnuðu erindi um Hringadróttinssögu. Það eru Gilfélagið á Akureyri, Djassklúbbur Akureyrar og Menningardeild Akureyrarbæjar sem standa að skipulagningunni.
Hátíðin hefst í kvöld og stendur fram að páskum en markmiðið er að stuðla að gleði milli fjöru og fjalls á Akureyri. Dagskráin verður kynnt hér á Akureyrarvefnum en auk þess er hægt að nálgast dagskrá Páskadagskrá á Norðurlandi á www.nordur.is
Erindi Ármanns Jakobssonar bókmenntafræðings um Hringadróttinssögu er fyrsti viðburðurinn á hátíðinni. Ármann er sérfræðingur um Hringadróttinssögu og kvikmyndirnar þrjár sem gerðar hafa verið. Það er því mikið gleðiefni að nýendurgert Amtsbókasafn á Akureyri verði vettvangur Ármanns í umfjöllun sinni en dagskráin hefst klukkan 20.30 í kvöld. Það er Gilfélagið sem á veg og vanda að heimsókninni. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/sidustu-syningar-katu-ekkjunnar | Síðustu sýningar Kátu ekkjunnar
Um helgina fara fram síðustu sýningar Leikhússkórsins á óperettunni Káta ekkjan eftir Franz Lehár. Leikstjóri er Ingunn Jensdóttir og um tónlistina sér Roar Kwam. Verkið hefur fengið afar góða dóma og Leikhúskórnum hefur verið hrósað fyrir glæsilega uppfærslu á óperettunni sem oft er nefnd "drottning óperettunnar". Verkið er án efa eitt elskaðasta verk sinnar tegundar sem skrifað hefur verið og eru lögin úr verkinu sungin um allan heim og eiga drjúgan þátt í vinsældum verksins. Sýningin fer fram í Ketilhúsinu, miðapantanir eru í síma 844-0166 milli klukkan 17.00 og 19.00 daglega. Auk þess er miðasalan í Ketilhúsinu opin sýningardagana frá klukkan 17.00.
Meira um sýninguna á www.nett.is/leikhuskorinn
Hljómsveitarstjóri: Roar Kvam
Píanó: Aladar Racs
Hljómborð: Helga Kvam
Bassi: Davíð Helgason |
https://www.akureyri.is/is/frettir/godamot-thors-i-boganum | Goðamót Þórs í Boganum
Um helgina fer fram Goðamót Þórs í knattspyrnu og er von á 320 keppendum á aldrinum 9 til 10 ára, 50 fararstjórum auk 200 til 300 manns sem munu fylgjast með mótinu. Leikirnir fara allir fram í Boganum og verða alls 110 leikir leiknir. Öll aðstaða á Þórssvæðinu er tilvalin til móthalds því drengirnir munu gista í Glerárskóla þar sem einnig er mötuneyti og svo er þeim frjálst að fara í Glerársundlaug hvenær sem er. Það eina sem þarf að sækja utan svæðisins er Brynjuísinn en þangað verða farnar rútuferðir á laugardag á 15 mínútna fresti!
Þetta er þriðja helgin í röð sem Goðamótið fer fram og annað árið. Áður var búið að keppa í stúlknaflokki og um þarsíðustu helgi var keppt í 5 flokki drengja. Á sunnudag fer fram verðlaunaafhending klukkan 13.00 en að henni lokinni byður styrktaraðili mótsins, Goði, upp á grillveislu. Allir eru velkomnir í Bogann að fylgjast með keppninni, fyrsti leikurinn hefst klukkan 16.00 í dag.
Hægt er að fylgjast með úrslitum mótsins á www.thorsport.is |
https://www.akureyri.is/is/frettir/midnaeturdjasstonleikar-i-ketilhusinu | Miðnæturdjasstónleikar í Ketilhúsinu
Á laugardag heldur hátíðin Skíðasveifla og snjóalög áfram með Miðnæturdjasstónleikum í Ketilhúsinu klukkn 23.00. Þetta atriði er á vegum Jazzklúbbs Akureyrar en þar leikur hljómsveitin NANÚNA eyrnakonfekt djasstónlistarinnar, m.a. lög eftir Herbie Hancock, Chick Corea og Paquito d'Rivera. Hljómsveitina skipa: Wolfgang Sahr á saxófón, Aladar Rácz á píanó, Stefán Ingólfsson á bassa og Karl Petersen á trommur. Aðgangseyrir er kr.1000.- en aðeins kr.500 fyrir Gilfélaga og meðlimi í Jazzklúbbi Akureyrar. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/leikur-a-radhustorgi | Leikur á Ráðhústorgi
Í dag föstudag, mun Ævintýradansleikhúsið og hljóðfærasmiðjan í samvinnu við Frúna í Hamborg, taka höndum saman og leika á Ráðhústorgi klukkan 17. Bæjarbúum á Akureyri er nú þegar kunnugt um Ævintýradansleikhúsið sem þær Anna Richards og Arna Valsóttir hafa starfrækt fyrir börn í allan vetur. Settar hafa verið upp sýningar reglulega í og við verslanir í miðbænum, áhorfendum til mikillar ánægju og upplyftingar fyrir miðbæinn. Þær stöllur starfa með börnunum einu sinni í viku og miðast starfið við að opna augu einstaklingsins fyrir frumkvæði, því óvænta og óhefðbundna. Aðalheiður S. Eysteinsdóttir hefur staðið fyrir hljóðfærasmiðju fyrir börn á aldrinum 6 til 11 ára undanfarnar 8 vikur. Þar var lögð áhersla á að börnin lærðu að nota óhefðbundninn efnivið og frumkvæði í sköpun við hljóðfæragerð.
Þessir tveir hópar munu nú sameina krafta sína með tilraunauppákomu, um hreyfingu á hjólum og hljómfall. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/sol-og-blida | Sól og blíða
"Halló! Páskar Akureyri" nefnist hátíð sem verður á Akureyri um páskana. Dagskráin hefst 2. apríl og þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi því margt er í boði. Einstakir dagskrárliðir verða kynntir sérstaklega hér á Akureyrarvefnum en vert er að minna á djasstónleika sem verða í Deiglunni á föstudagskvöld, svo og kvartetttónleika á sama stað á laugardag. Dagskrána í heild sinni er að finna hér til vinstri á síðunni undir hnappnum "Halló Páskar". |
https://www.akureyri.is/is/frettir/200-milljonir-i-pottinum | 200 milljónir í pottinum
Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Matvælasetur HA standa fyrir hádegisverðarfundi nk. fimmtudag þar sem Tækniþróunarsjóður verður kynntur í tilefni af fyrstu úthlutun úr þessum nýja sjóði sem er ætlað að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Í ár hefur sjóðurinn 200 milljónir til ráðstöfunar og er áætlað að úthlutanir sjóðsins verði komnar í 500 milljónir árið 2007. Hörður Jónsson verkefnisstjóri kynnir áherslur og reglur sjóðsins. Eftir fundinn verður hann til viðtals við einstaka aðila sem vilja fá sértækar upplýsingar hvað varðar þeirra umsóknir. Fundurinn hefst kl. 12.10 næsta fimmtudag á Fiðlaranum og greiða fundarmenn 1.500 kr. fyrir léttan hádegisverð. Allir eru velkomnir og er skráning á skrifstofu AFE í síma 460 5700 eða í gegnum netpóst sigga@afe.is. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/undirritun-samnings-milli-haskolans-a-akureyri-og-menntamalaraduneytisins | Undirritun samnings milli Háskólans á Akureyri og menntamálaráðuneytisins
Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og rektor Háskólans á Akureyri, Þorsteinn Gunnarsson, undirrituðu í gær, mánudaginn 29. mars, samning um kennslu og rannsóknir við skólann. Í samningnum birtist stefna stjórnvalda í málefnum háskólans og skýrð eru hlutverk hans í rannsóknum.
Gert er ráð fyrir að háskólinn geri fimm ára áætlun um starfsemi sína sem taki m.a. hliðsjón af stefnu ríkisstjórnarinnar um árangursstjórnun í ríkisrekstri. Í samningunum er fjallað um fjárveitingar til kennslu og skýrt er hvernig uppgjör á nemendatölum skuli fara fram. Gæðamál skólans eru í brennidepli og lögð er sú skylda á skólann að hann þrói áfram og styrki gæðamál sín vegna kennslu, m.a. til að bæta þjónustu við nemendur. Menntamálaráðuneytið mun hins vegar gera áætlun um ytri gæðaúttektir á starfsemi háskólans til allt að þriggja ára. Þær prófgráður sem háskólinn býður upp á, og greitt er fyrir skv. samningi, koma fram í viðauka.
Við gerð samningsins hefur það verið sameiginleg niðurstaða háskólans og ráðuneytisins að leggja áherslu á alþjóðasamskipti. Gert er ráð fyrir að háskólinn taki þátt í þeim samstarfsáætlunum og verkefnum sem stjórnvöld eru aðilar að. Í samningnum er jafnframt lögð áhersla á samstarf háskóla hér heima, m.a. er gert ráð fyrir að hver skóli setji reglur um gagnkvæma viðurkenningu námsþátta. Markmiðið er að auka möguleika nemenda til að fá nám sitt metið milli háskóla.
Að lokum er fjallað um hvaða áherslur gilda um rannsóknarhlutverk háskólans og fjárframlög til rannsóknarstarfsemi hans. Hlutverk háskólans í rannsóknum byggir á lögum og reglum sem gilda um háskólann og samþykktri Vísinda- og tæknistefnu stjórnvalda frá 18. desember 2003. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/throunarsamvinna-a-krossgotum | Þróunarsamvinna á krossgötum
Á félagsvísindatorgi Háskólans á Akureyri verður í dag fjallað um þróunarsamvinnu á krossgötum. Fyrirlesarinn er Sjöfn Vilhelmsdóttir, stjórnmálafræðingur en fyrirlesturinn er að vanda í Þingvallastræti 23, stofu 14 klukkan 16.30 í dag.
Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) er sjálfstæð ríkisstofnun sem heyrir undir utanríkisráðuneytið. Hún var stofnuð með lögum árið 1981 og er ætlað að vinna að tvíhliða samstarfi Íslands við þróunarlönd. Áhersla er lögð á samvinnu við þau lönd þar sem lífskjörin eru lökust og er aðstoðin einkum veitt á þeim sviðum þar sem Íslendingar búa yfir sérstakri þekkingu og reynslu. Í erindi sínu á Félagsvísindatorgi ætlar Sjöfn Vilhelmsdóttir gera grein fyrir áherslubreytingum í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og nýjum stefnum og áherslum í tvíhliða þróunaraðstoð Íslands. Hún kynnir einnig starfsemi ÞSSÍ
Sjöfn Vilhelmsdóttir lauk B.A. gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og M.A. gráðu í alþjóðafræðum með mannréttindi og þróunarsamvinnu sem sérsvið frá Háskólanum í Denver í Bandaríkjunum árið 1999. Á meðan á framhaldsnámi stóð starfaði hún á aðalskrifstofu ÞSSÍ í Reykjavík í 3 sumur, sem og um 3ja mánaða skeið hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna í Genf. Hún starfaði sem verkefnisstjóri félagslegra verkefna ÞSSÍ í Namibíu frá 1999 til 2003. Haustið 2003 kom Sjöfn á ný til starfa á aðalskrifstofu ÞSSÍ í Reykjavík sem útgáfu- og fræðslustjóri. Sjöfn hefur hefur gert vettvangsrannsóknir í Afríku um fullorðinsfræðslu kvenna og ritað um þróunarmál í bækur og tímarit. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/skidamotin-i-hlidarfjalli | Skíðamótin í Hlíðarfjalli
Dagana 28.-30. mars voru alþjóðleg mót í alpagreinum haldin í Hlíðarfjalli. Keppt var í svigi og stórsvigi karla og kvenna (tvisvar í stórsvigi kvenna). Um var að ræða svonefnd FIS-mót, þar sem keppt er um að lækka FIS-stig, en þau eru mikilvæg fyrir rásröð á skíðamótum og hún ræður miklu um árangur á mótum.
Um 80 keppendur voru á mótunum þar af um 30 erlendir, flestir frá Noregi. Einnig voru keppendur frá Bandaríkjunum, Hollandi, Ástralíu, Austurríki, Belgíu, Grenada, Nýja-Sjálandi og Danmörku. Á mótinu var staddur landsliðsþjálfari Íslands í alpagreinum, sem er Ástralinn Jamie Dunlop. Hann var að koma til Akureyrar í fyrsta sinn. Einn norsku keppendanna var Aksel Lund-Svindal, sem er meðal allra bestu skíðamanna í heiminum í dag, hafnaði t.d. í 16. sæti í síðustu heimsbikarkeppni alpagreina.
Kristján Uni Óskarsson, Ólafsfirði, sigraði bæði í svigi og stórsvigi karla og Emma Furuvik, Ármanni, sigraði í svigi og öðru stórsvigi kvenna. Í síðara stórsvigi kvenna sigraði Leah McLaughry frá Bandaríkjunum.
Af akureyrskum skíðamönnum á mótunum náðu bestum árangri þær Ásta Björg Ingadóttir, sem vann silfurverðlaun í svigi, og Hrefna Dagbjartsdóttir, sem vann bronsverðlaun í stórsvigi.
Á morgun hefst Skíðamót Íslands á Siglufirði og Ísafirði. Í alpagreinum verður mótið líka svonefnt FIS-mót og verður spennandi að sjá hvernig íslensku skíðamönnunum gengur að keppa við þá erlendu.
Aksel Lund-Svindal frá Noregi á fullu skriði í Hlíðarfjalli (ljósm: Guðmundur Jakobsson). |
https://www.akureyri.is/is/frettir/uppselt-a-eldad-med-elvis-aukasyningu-baett-vid | Uppselt á Eldað með Elvis - aukasýningu bætt við
Leikritið Eldað með Elvis verður frumsýnt á Akureyri 2. apríl og er þegar uppselt á allar fyrirhugaðar sýningar. Ákveðið hefur verið að bæta við aukasýningu fimmtudaginn 8. apríl kl. 16.00. Sala er hafin á miðum á þá sýningu. Leikritið hefur verið sýnt fyrir fullu húsi í Loftkastalanum frá áramótum en höfundur verksins verður viðstaddur sérstaka hátíðarsýningu á Akureyri, 7. apríl. Höfundurinn heitir Lee Hall og er einnig þekktur fyrir að hafa skrifað handritið að bíómyndinni um Billy Elliot.
Eldað með Elvis er í senn drepfyndið og átakanlegt. Söguþráðurinn er á þá leið að lamaður maður, sem áður var Elvis-eftirherma, ófullnægð eiginkona hans og brjóstgóð dóttir, kynnast ósköp venjulegum deildarstjóra hjá Myllunni og þá verður er fjandinn laus... Uppsetningin hlaut frábæra dóma og hefur verið vel tekið af áhorfendum. Leikarar eru Álfrún Örnólfsdóttir, Steinn Ármann Magnússon, Friðrik Friðriksson og Halldóra Björnsdóttir. Þýðandi er Hallgrímur Helgason og leikstjóri er Magnús Geir Þórðarson. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/egill-og-trio-bjorns-thoroddsen-i-deiglunni | Egill og Tríó Björns Thoroddsen í Deiglunni
Á morgun föstudag mætir Egill Ólafsson, fjölsöngvari og stuðmaður, ásamt Tríói Björns Thoroddsen í Deigluna og flytja söngdagskrá sína tvisvar sinnum, fyrst klukkan 20.30 og svo aftur klukkan 23.00 sama kvöld. Auk Björns leika í tríóinu: Ásgeir Óskarsson á gítar og Gunnar Hrafnsson á kontrabassa. Það er Gilfélagið sem á veg og vanda að þessari skemmtun. Forsala á miðum verður í bókabúðinni Penninn Bókval í Hafnarstræti og við innganginn. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/mars-var-einstakur-a-akureyriis | Mars var einstakur á Akureyri.is
Akureyri.is heldur áfram að slá ný met og nýliðinn marsmánuður var einstakur á allan hátt, ekki bara veðurfarslega. Gestir voru 12.616 og flettingar 115.621! Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þá hafa flettingar á síðunni aukist statt og stöðugt frá því í júní árið 2002 og gestafjöldinn mjakast hægt og bítandi upp á við. Það þýðir í raun að þeir sem koma inn á síðuna skoða sífellt meira og forvitnast þannig um allt mögulegt sem bæjarlífið hefur upp á að bjóða. Síðasti mánuður sker sig algjörlega úr hvað flettingarnar varðar og samkvæmt upplýsingum frá Samræmdri vefmælingu voru vinsælustu síðurnar í mánuðinum fréttir, laus störf (auglýsingar um sumarstörf hafa þar rík áhrif), hótel og gististaðir, nýjustu fundargerðirnar, 12 ástæður til að búa á Akureyri og mynd vikunnar. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/lokahof-flottamannaverkefnis | Lokahóf flóttamannaverkefnis
Félagsmálaráðherra og bæjarstjóri Akureyrar voru viðstaddir lokahóf flóttamannaverkefnisins sem var haldið á Hótel KEA föstudaginn í síðustu viku. Þar voru samankomnar þær sex fjölskyldur sem komu til Akureyrar fyrir rúmu ári auk rúmlega 60 manns sem hafa stutt þetta verkefni. Með lokahofinu lýkur Akureyrarbær hlutverki sínu en fólkið hyggst flest búa áfram hér á Akureyri. Verkefnið hefur í alla staði gengið vel og eru allir við það að ná góðum tökum á íslenskunni, þó sér í lagi krakkarnir sem hafa verið snöggir upp á lagið með tungumálið. Í hófinu komu krakkarnir fram og sýndu dans auk þess sem ein af flóttakonunum hélt tölu. Fjölskyldurnar eru þakklátar fyrir þann stuðning sem þær hafa fengið hér í bæ og vonast til að geta verið hér áfram við vinnu og störf. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/big-jump-keppni-i-gilinu-annad-kvold | Big Jump keppni í Gilinu annað kvöld
Ak-Extreme snjóbrettamótið er nú hafið í Hlíðarfjalli og á morgun verður, líkt og í fyrra, sérstök Big Jump keppni efst í Gilinu. Í fyrra fylgdust um 3.000 manns með snjóbrettaköppunum leika listir sínar. Það hefur varla farið fram hjá bæjarbúum að risastórum gámum frá Eimskip hefur verið hlaðið upp sunnan við Andapollinn og á morgun verður snjó mokað á stökkbrautina sem smíðuð hefur verið. Já, veðrið hefur gert strik í reikninginn en keppninni í Gilinu verður ekki aflýst úr þessu, nema það fari að hellirigna. Aðstandendur Ak-Extreme fylgjast grannt með spánni frá Veðurstofu Íslands og vona hann hangi þurr.
Talið er að um 3.000 manns hafi fylgst með Big Jump keppninni í fyrra. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/snjobretti-i-gilinu-i-kvold | Snjóbretti í Gilinu í kvöld
Búið er að flytja snjó úr Hlíðarfjalli í Gilið á Akureyri og er unnið að fullum krafti að undirbúningi snjóbrettasýningarinnar sem verður þar klukkan 9 í kvöld í tengslum við Ak-Extreme. Hitastigið á Akureyri er nú um 12 gráður en til að koma í veg fyrir að snjórinn bráðni of hratt er settur undir hann ís sem Útgerðarfélag Akureyringa lét góðfúslega í té. Auk þess sem snjóbrettakappar muni stökkva í kvöld verða þar einnig skíðamenn og vélsleðafólk á ferð, þannig að búast má við miklu sjónarspili.
Ísnum frá ÚA er mokað á brettin í blíðskaparveðri á Akureyri.
Myndir frá AK-Extreme í Hlíðarfjalli í dag. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/honnunarsamkeppni-um-menningarhus | Hönnunarsamkeppni um menningarhús
Haldinn var blaðamannafundur í Ráðhúsinu á Akureyri í gær þar sem kynnt var hönnunarsamkeppni um menningarhús. Skipuð hefur verið 5 manna dómnefnd til að sjá um samkeppnina og mun hún skila niðurstöðum til menntamálaráðuneytis og Akureyrarbæjar fyrir ágústlok 2004.
Hinn 7. apríl 2003 undirrituðu Tómas Ingi Olrich, þáverandi menntamálaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, samkomulag um byggingu menningarhúss á Akureyri. Í samræmi við samkomulagið var skipuð verkefnisstjórn, sem ætlað var að gera tillögu um starfsemi í fyrirhuguðu menningarhúsi og gera rýmisáætlun og tímaáætlun um framkvæmdina í heild sinni. Einnig skyldi verkefnisstjórnin láta gera kostnaðaráætlun og skyldi miða við að heildarkostnaður við verkið yrði ekki meiri en 1.200 m.kr.
Verkefnisstjórnin lauk þessu verki í byrjun nóvember 2003 með greinargerð til menntamálaráðuneytisins og Akureyrarbæjar. Tillögur verkefnisstjórnarinnar voru samþykktar af hálfu menntamálaráðherra og Akureyrarbæjar og í samræmi við þær tilnefndu menntamálaráðuneytið, Akureyrarbær og Arkitektafélag Íslands fulltrúa í dómnefnd, sem menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, skipaði, til að annast samkeppni um hönnun menningarhússins. Keppnistillögum skal skila inn eigi síðar en 5. júlí 2004 og stefnt er að því að dómnefnd kunngeri niðurstöður sínar 28. ágúst 2004.
Byggingarsvæðið á uppfyllingunni við Torfunef fyrir miðri mynd
Markmið með byggingu menningarhúss á Akureyri er að efla enn frekar fjölbreytt menningarlíf á Norðurlandi. Í menningarhúsinu er ráðgert að hvers konar tónlistarflutningur verði í öndvegi en í húsinu verði jafnframt aðstaða til annarrar fjölþættrar starfsemi svo sem fyrir ráðstefnuhald, fundi, listdans, dans, leiklist, sýningarhald o.fl. Jafnframt er gert ráð fyrir að Upplýsingamiðstöð ferðamanna verði í húsinu, sem og veitingasala.
Menningarhúsinu er ætlaður staður í miðbæ Akureyrar á áberandi stað þar sem húsið gæti orðið eitt af kennileitum bæjarmyndarinnar. Byggingin mun rísa á fyllingu sem gerð hefur verið í krikanum á mótum Strandgötu og Glerárgötu. Á suðurjaðri fyllingarinnar hefur verið gert lægi fyrir smábáta. Þar er jafnframt aðstaða til móttöku ferðamanna sem koma að landi með léttabátum stórra skemmtiferðaskipa sem liggja við festar á Pollinum. Áform eru uppi um að í framtíðinni verði gerð aðstaða fyrir lysti- og skemmtiferðaskip á Torfunefi, þar sem stór skemmtiferðaskip muni geta lagst að bryggju.
Tilgangur samkeppninnar er að fá snjallar og raunhæfar tillögur að fallegri byggingu sem fellur vel að umhverfi sínu. Húsið þarf að taka tillit til sterkrar og viðkvæmrar bæjarmyndar en vera jafnframt sjálfstætt og mótandi í þeirri viðleitni. Húsið þarf ennfremur að vera hagkvæmt og hentugt til þeirrar starfsemi sem þar er ætlað að vera.
Markmið verkkaupa með samkeppninni er að ná fram sem bestri heildarlausn viðfangsefnisins.
Dómnefnd leggur höfuðáherslu á eftirfarandi:
Byggingarlist, þ.m.t. form, efnisval og heildarmynd
Innra fyrirkomulag
Hagkvæmni í rekstri
Samræmi við forsögn
Byggingarkostnað
Umferðar-, aðgengis- og öryggismál
Fyrirkomulag á lóð og umhverfisþætti
Dómnefnd mun í niðurstöðum sínum fjalla sérstaklega um hverja tillögu fyrir sig sé þess nokkur kostur og gefa henni umsögn.
Heildarverðlaunafé hefur verið ákveðið kr. 8.000.000,-. Stefnt er að því að veita þrenn verðlaun og að verðlaunafé skiptist þannig:
1. verðlaun kr. 4.000.000,-
2. verðlaun kr. 2.500.000,-
3. verðlaun kr. 1.500.000,-
Að auki hefur dómnefnd heimild til innkaupa á keppnistillögum fyrir allt að kr. 1.500.000,-.
Dómnefnd er skipuð fimm fulltrúum.
Tilnefndir af verkkaupa:
Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri, formaður dómnefndar
Oddur Helgi Halldórsson, bæjarfulltrúi
Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarfulltrúi
Tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands:
Guðrún Ingvarsdóttir, arkitekt FAÍ
Þorvaldur S. Þorvaldsson, arkitekt FAÍ
Frá blaðamannafundi um hönnunarsamkeppni menningarhúss á Akureyri |
https://www.akureyri.is/is/frettir/starfslaun-listamanna-2004-2005 | Starfslaun listamanna 2004 - 2005
Menningarmálanefnd hefur auglýst eftir umsóknum um starfslaun listamanna fyrir tímabilið 1. júní 2004 til 31. maí 2005. Starfslaunum verður úthlutað til tveggja listamanna til 9 mánaða annars vegar og 3 mánaða hins vegar. Ætlast er til að viðkomandi listamaður helgi sig list sinni eða einstökum verkefnum á vettvangi hennar á starfslaunatímanum. Umsækjendur þurfa að skila, ásamt umsókn, ítarlegum upplýsingum um listferil sinn og greinargóðum upplýsingum um hvernig starfslaunatíminn skal notaður. Ekki er um sérstök umsóknareyðublöð að ræða
Það styttist í umsóknarfrestinum en hann rennur út 16. apríl. Listamenn hvattir til að nýta tækifærið og kynna sér reglur um styrkinn hér á akureyri.is (Forsíða > Stjórnkerfið > Reglur og samþykktir > Menningarmál). Síðast voru það myndlistarmaðurinn Jónas Viðar og rithöfundurinn Jóhann Árelíuz sem hlutu starfslaun listamanna á Akureyri. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/rokktonleikar-a-thridjudagskvold | Rokktónleikar á þriðjudagskvöld
Rokkhljómsveitirnar Kanis frá Akureyri og Amos frá Reykjavík ásamt Múskat og Kingstone munu skemmta áhorfendum í Deiglunni annaðkvöld klukkan 20.00. Kanis er skipuð Davíð Þór Helgasyni á bassa, Hjalta Jónssyni á gítar og hann sér einnig um sönginn, Hrafnkeli Brimari Hallmundssyni á gítar og loks Sverri Páli Snorrasyni á trommur. Hljómsveitin Amos hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir mikla færni þrátt fyrir ungan aldur meðlima því þeir eru aðeins 16 ára. Báðar hljómsveitirnar leika fjölbreytt rokk en á plötu Kanis gefur að heyra frumsamið rokk þó með áherslu á fjölbreytni allt frá léttu poppi til þungs rokks. Meira má lesa um hljómsveitirnar á heimasíðum þeirra. Tónleikarnir hefjast sem fyrr segir klukkan 20 og aðgangseyrir er kr. 400.-
www.kanis.is www.amos-theband.tk www.kingstone.tk |
https://www.akureyri.is/is/frettir/paskar-i-akureyrarkirkju | Páskar í Akureyrarkirkju
Að venju verður hátíðleg dagskrá í Akureyrarkirkju um páskana þar sem Pássíusálmarnir verða meðal annars lesnir, efnt til kyrrðarstundar og haldnar almennar messur á upprisuhátíðinni.
Klukkan 20.30 á skírdag verður kvöldmessa í Akureyrarkirkju. Prestur er sr. Guðmundur Guðmundsson og organisti Eyþór Ingi Jónsson.
Á föstudaginn langa hefst lestur Passíusálma Hallgríms Péturssonar í kirkjunni klukkan 11 og er áætlað að honum ljúki um kl. 16. Það eru kennarar við hina ýmsu skóla á Akureyri sem lesa. Á heila tímanum syngja stúlkur úr Barnakór og Stúlknakór Akureyrarkirkju einsöng. Kl. 20.30 um kvöldið verður Kyrrðarstund við krossinn í umsjá sr. Svavars A. Jónssonar. Þar syngur Kór Akureyrarkirkju og Eyþór Ingi Jónsson leikur á orgelið.
Upprisuhátíð Akureyrarkirkju á páskadag hefst með árdegismessu klukkan 8. Prestur er sr. Svavar A. Jónsson, Kór Akureyrarkirkju syngur og Eyþór Ingi Jónsson leikur á orgel. Milli klukkan 8 og 11 verður opið hús í safnaðarheimili. Þar syngja Barnakór og Stúlknakór Akureyrarkirkju, hinn forni siður “páskahláturinn” verður í heiðri hafður og veitingar fram bornar. Klukkan 11 hefst svo fjölskylduguðsþjónusta þar sem sr. Guðmundur Guðmundsson héraðsprestur predikar og þjónar fyrir altari. Barnakórinn og Stúlknakórinn syngja og Eyþór Ingi Jónsson stjórnar og annast orgelleik. Klukkan 15.30 verður messa á Dvalarheimilinu Hlíð, þar sem Kór eldri borgara syngur. Loks er messað á Fjórðungssjúkrahúsinu klukkan 17.
Annan páskadag klukkan 17 er hátíðarmessa og ferming í Minjasafnskirkjunni. Prestur er sr. Svavar A. Jónsson. Um sönginn sjá félagar úr Kór Akureyrarkirkju. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/vaxtarsamningur-eyjafjardarsvaedisins | Vaxtarsamningur Eyjafjarðarsvæðisins
Miðvikudaginn 7. apríl verður haldinn á Hótel KEA á Akureyri kynningarfundur um skýrslu Verkefnistjórnar um byggðaáætlun fyrir Eyjafjarðarsvæðið. Í skýrslunni segir m.a. að það sé "mat og framtíðarsýn verkefnisstjórnar að fyrir árið 2020 verði íbúatala Eyjafjarðarsvæðisins um 30.000 í fjölskylduvænu samfélagi sem verður eftirsótt vegna góðrar þjónustu, möguleika til menntunar og nýtingu frítíma sem byggist á fjölbreyttu, framþróuðu, sérhæfðu og samkeppnishæfu atvinnulífi með sterk alþjóðleg tengsl. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að íbúum svæðisins sem og atvinnutækifærum fjölgi árlega að meðaltali um 2,3%."
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
14.45 Skráning.
15.00 Ávarp. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
15.10 Niðurstöður og tillögur. Sigmundur Ernir Rúnarsson, formaður Verkefnisstjónar byggðaáætlun Eyjafjarðar.
15.25 Vaxtarsamningur, áherslur og starfsskilyrði. Baldur Pétursson, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti. Guðmundur Guðmundsson, Byggðastofnun.
15.50 Kaffi.
16.00 Viðhorf og áherslur Akureyrarbæjar. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, Akureyri.
16.10 Sjónarmið og áherslur aðila á svæðinu. Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, Ásgeir Magnússon, forstöðumaður Skrifstofu atvinnulífsins á Norðurlandi, Akureyri, Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, Akureyri, Valtýr Sigurbjarnarson, framkvæmdastjóri, Héraðsnefnd Eyjafjarðar.
16.40 Fyrirspurnir - almennar umræður.
17.00 Fundarlok.
Fundarstjóri: Ragnar Hólm Ragnarsson, verkefnisstjóri hjá Akureyrarbæ.
Þátttaka á fundinn tilkynnist til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins í síma 545 8500. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/menningarhus-keppnislysing | Menningarhús - keppnislýsing
Hafin er hönnunarsamkeppni um byggingu menningarhúss á Akureyri og hefur keppnislýsing nú verið send út til þeirra vilja spreyta sig á þessu spennandi verkefni. Gögnin er einnig að finna hér.
Á morgun verður liðið slétt ár síðan Tómas Ingi Olrich, þáverandi menntamálaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, undirrituðu samkomulag um byggingu menningarhúss á Akureyri. Sérstök verkefnisstjórn var skipuð og skilaði hún tillögum til menntamálaráðuneytisins og Akureyrarbæjar í nóvember 2003. Dómnefnd til að annast samkeppni um hönnun menningarhúss var skipuð í framhaldinu, keppnistillögum skal skila inn til hennar eigi síðar en 5. júlí 2004 og ráðgert er að dómnefnd kunngeri niðurstöður sínar 28. ágúst 2004.
Frá undirritun samkomulagsins 7. apríl í fyrra. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/minni-launamunur-kynjanna | Minni launamunur kynjanna
Samkvæmt samantekt sem Viðskiptaráðgjöf IBM gerði nýverið fyrir Kópavogsbæ er launamunur kynjanna hjá Akureyrarbæ mun minni en hjá Reykjavíkurborg. Bornar voru saman launakannanir sem nokkur sveitarfélög hafa látið gera á síðastliðnum árum og er könnun Akureyrarbæjar sú elsta en hún var gerð 1998. Samkvæmt Jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar verður aftur gerð allsherjarlaunakönnun árið 2006 og verður þá fróðlegt að sjá hvernig tölurnar frá 1998 hafa breyst.
Með grunnskólakennurum
án grunnskólakennara
Akureyri (1998)
8%
12%
Mosfellsbær (2000)
6%
12%
Hafnarfjörður (2001)
8%
12%
Reykjavík (2002)
15%
19%
Kópavogur (2002)
5%
9%
Tafla: Hlutfallslegur munur á meðal heildarlaunum karl- og kvenkyns starfsmanna nokkurra sveitarfélaga.
Heimild: IBM okt. 2003 |
https://www.akureyri.is/is/frettir/aldurshopurinn-0-til-19-ara-hlutfallslega-staerstur-a-akureyri | Aldurshópurinn 0 til 19 ára hlutfallslega stærstur á Akureyri
Í skýrslu Hagstofunnar kemur fram að aldurshópurinn 0 til 19 ára er hlutfallslega stærstur á Akureyri en á landinu öllu. Einnig er aldursflokkkurinn 0 til 9 ára stærstur hér eða 7% stærri en annarsstaðar á landinu. Eðlilega er aldurshópurinn 70 til 99 ára stór á Akureyri enda þarf þetta fólk oft að vera nálægt stofnunum sem getur annast það og þær er að finna á Akureyri. Samkæmt þessari skýrslu virðist fólk á Akureyri einfaldlega eignast fleiri börn en gerist á landinu og má með sanni kalla bæinn fjölskyldubæ.
Til gamans má nefna að fjölmennasti árgangurinn á Akureyri er 5, 9 til 11 og 12 og 13 ára. Til samanburðar eru fimm stærstu árgangarnir á landinu 10, 11, 13, 15 og 23 ára.
Þjóðin er allmennt að eldast og er Norðurland engin undantekning. Hlutfall þeirra sem voru 0 til 39 ára 1.desember 2003 var 59% og á Akureyri var hlutfallið hið sama. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/uthlutun-leikskolaplassa-fyrir-skolaarid-2004-ndash-2005 | Úthlutun leikskólaplássa fyrir skólaárið 2004–2005
Börnum stendur til boða leikskólapláss árið sem þau verða 2ja ára og aðalúthlutun fyrir næsta skólaár hefst eftir 15. apríl nk. Þeir foreldrar sem hafa hug á að nýta pláss í leikskólum Akureyrar fyrir börn sín næsta skólaár og hafa ekki sótt um slíkt er bent á að umsóknareyðublöð fyrir leikskólapláss liggja frammi á Skóladeild Akureyrarbæjar, Glerárgötu 26, í Þjónustuanddyri Akureyrarbæjar að Geilsagötu 9 og á heimasíðu bæjarins, Akureyri.is.
Bent er á að opnaður verður nýr glæsilegur leikskóli við Tröllagil þann 15. ágúst nk. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/soroptimistakonur-og-baekurnar | Soroptimistakonur og bækurnar
Nær allar vikur ársins sækja konur úr Soroptimistaklúbbi Akureyrar bækur á Amtsbókasafnið og keyra heim til aldraðra og þeirra sem eiga ekki heimangengt. Þetta hafa þær gert í sjálfboðavinnu síðastliðin 22 ár og það er til marks um umfang þessarar starfsemi að árið 2003 keyrðu þær heim til fólks 16.265 bókatitla! Að jafnaði njóta u.þ.b. 35 lánþegar þessarar þjónustu en fyrirhugað er að í framtíðinni verði soroptimistakonur á ferðinni tvisvar í mánuði í þessum tilgangi.
Soroptimistaklúbbur Akureyrar var stofnaður 13. febrúar árið 1982 og eru klúbbsystur nú 35. Klúbburinn er aðili að alþjóðasambandi soroptimista sem er málsvari kvenna um allan heim. Samtökin sameina dugandi konur úr öllum starfsgreinum sem vinna að eflingu þeirrar hugsjónar að stuðla að betra mannlífi í hverfulum heimi. Í dag starfa um 460 konur í 17 klúbbum á Íslandi. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/midjan-er-undir-iljum-thinum | Miðjan er undir iljum þínum
Út er komin á vegum Háskólans á Akureyri bókin "Miðjan er undir iljum þínum - héraðsfréttablöð og nærumfjöllun á nýrri öld" eftir Birgi Guðmundsson, aðjunkt við skólann. Í bókarkynningu segir: "Umræðan um nauðsyn fjölbreytni í fjölmiðlum hefur verið kröftug á Vesturlöndum undanfarin ár og magnast í réttu hlutfalli við vöxt einsleitninnar, sem fylgir hnattvæðingu og sívaxandi kröfum um rekstrarlega hagræðingu. Á Íslandi hefur þessi umræða náð sér á strik síðustu misserin, en hefur nær eingöngu miðast við rekstur fjölmiðla á landsvísu. Þar til nú hefur ekkert verið fjallað um þann fjölbreytileika sem felst í fjölmiðlum sem einbeita sér að nærsamfélaginu og binda sig við tiltekin landsvæði eða héruð. Í þessu riti opnar höfundur hins vegar umræðu um mikilvægi slíkra fjölmiðla fyrir þau samfélög sem þeir starfa í, kortleggur þessa flóru og birtir rannsóknarniðurstöður. Hann spyr sérstaklega um mikilvægi héraðsfréttablaða og nærfjölmiðla fyrir samheldni og uppbyggingu staðbundinna samfélaga eða byggðalaga. Slíkar spurningar eru vel þekktar í jafnt fræðilegri sem almennri umræðu erlendis, þó lítið hafi borið á þeim í íslenskri byggðaumræðu."
Birgir Guðmundsson lauk mastersprófi í stjórnmálafræði frá University of Manitóba 1984 og BA hon. prófi í stjórnmálafræði og sögu við University of Essex árið 1980. Hann starfaði sem blaðamaður, fréttastjóri og ritstjóri á dagblöðum frá 1985-2002, en kennir nú stjórnmálafræði, stjórnun og fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Birgir er ritstjóri Blaðamannsins, fagrits Blaðamannafélags Íslands og heimasíðu félagsins press.is. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/margret-jonsdottir-leirlistakona-opnar-gallery | Margrét Jónsdóttir leirlistakona opnar gallerý
Á morgun, skírdag, opnar leirlistarkonan Margrét Jónsdóttir sölu- og sýningarsal í Gránufélagsgötu 48. Þar verða nytja- og listmunir hennar til sýnis og sölu auk þess sem hún hyggst leigja salin út til annarra listamanna fyrir stuttsýningar. Opnun sýningarsalarins verður kl. 15 á morgun. Heitt verður á könnunni og er fólk hjartanlega velkomið. Meira má lesa um Margréti og hennar verk á heimasíðu hennar www.margretjonsdottir.com og hafa samband við hana hjá margretj@nett.is og í síma 462 5995. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/radstefna-um-sjalfraedi-og-sjalfstaedi | Ráðstefna um sjálfræði og sjálfstæði
Á föstudaginn kemur verður haldin ráðstefna á Fiðlaranum á Akureyri um sjálfræði og sjálfstæði með sérstakri vísan til fólks með fötlun og annarra sem þurfa þjónustu og aðstoð opinberra aðila og fjölskyldu til að ráða fram úr daglegum viðfangsefnum. Að ráðstefnunni standa Félagssvið Akureyrarbæjar, Landssamtökin Þroskahjálp, Þroskaþjálfarafélag Íslands og Þroskahjálp á Norðurlandi eystra. Dagskráin hefst klukkan 8.45 og stendur til 16.00.
Skráning á ráðstefnuna fer fram í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar og í síma 460-1000, hjá Landssamtökunum Þroskahjálp í síma 588-9390 eða netfang afgreidsla@throskahjalp.is , og hjá Þroskahjálfafélagi Íslands, throska@throska.is
Ráðstefnugjald er kr. 2000.- en þar er innifalinn hádegisverður og kaffi. Vinsamlegast gangið frá skráningu fyrir fimmtudaginn 15.apríl.
Dagskrá:
Ráðstefna um sjálfræði og sjálfstæði.
Föstudaginn 16.apríl á Akureyri í sal Fiðlarans, Skipagötu14
Ráðstefnustjóri: Salóme Þórisdóttir
8.45 - 09.15 Skráning og greiðsla ráðstefnugjalds
9.15 - 09.30 Setning Jakob Björnsson, formaður félagsmálaráðs Akureyrarbæjar
9.30 ? 10.00 Siðfræði og sjálfræði: Þórgnýr Dýrfjörð heimspekingur
10.00 - 10.30 Fagmennska og sjálfræði: Baldur M. Rafnsson þroskaþjálfi
10.30 ? 10.50 Kaffi og meðlæti
10.50 - 11.20 Nauðung - hvað getum við af öðrum þjóðum lært?: Friðrik Sigurðsson framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
11.20 ? 11.50 Mannréttindi og fötlun: Helgi Hjörvar alþingismaður
11.50 ? 12.10 Fyrirspurnir og umræður
12.10 ? 13.10 Hádegisverður
13.10 ? 13.40 Lögfræði og sjálfræði: Inga Þöll Þórgnýsdóttir lögmaður
13.40 ? 14.10 Af réttindagæslu heima í héraði: Pétur Pétursson formaður svæðisráðs málefna fatlaðra á Nl. eystra
14.10 ? 14.40 Sjónarmið notanda: Guðmunda Finnbogadóttir nemi
14.40 ? 15.10 Sjónarmið aðstandanda
15.10 ? 15.30 Fyrirspurnir og umræður
15.30 ? 16.00 Niðurstöður og ráðstefnuslit: Halldór Gunnarsson formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar |
https://www.akureyri.is/is/frettir/vaxtarsamningur-og-klasar | Vaxtarsamningur og klasar
Á miðvikudag var haldinn fundur á Hótel KEA þar sem Verkefnisstjórn um byggðaáætlun fyrir Eyjafjarðarsvæðið kynnti lokaskýrslu sína og niðurstöður. Þar er meðal annars lagt til að gerður verði svokallaður vaxtarsamningur fyrir árin 2004 til 2007 sem byggist á nýjum aðferðum við að styrkja hagvöxt einstakra svæða. Samningurinn taki mið af sambærilegum aðferðum, sem best hafa tekist erlendis.
Tillögurnar eru um margt nýjung á sviði byggðamála hér á landi, ekki síst hvað varðar uppbyggingu í formi svokallaðs vaxtarsamnings þar sem lögð er áhersla á klasa á sviði mennta og rannsókna, á heilsusviði, ferðaþjónustu og á sviði matvæla. Tillögurnar taka mið af sambærilegum áherslum víða erlendis í fjölmenni eða fámenni, þar sem lögð er aukin áhersla á að efla byggðakjarna með markaðstengdum aðgerðum þar sem atvinnulíf ber uppi hagvöxt svæðisins.
Það er mat Verkefnisstjórnarinnar að Eyjafjarðarsvæðið eigi sér mikla möguleika til vaxtar og þróunar og aukinnar samkeppnishæfni, með þeim aukna fjölbreytileika og bættum lífskjörum sem því fylgir og að fyrir árið 2020 verði íbúatala Eyjafjarðarsvæðisins um 30.000.
Í maí 2002 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002–2005. Samkvæmt henni er lagt til að unnið verði að sérstakri byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð með það að markmiði að efla þetta öflugasta þéttbýlissvæði utan höfðuborgarsvæðisins sem byggðakjarna fyrir Norður- og Austurland. Í árslok 2002 skipaði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra fimm manna verkefnisstjórn til að gera tillögu til ráðherra um stefnumörkun byggðaáætlunar fyrir Eyjafjörð. Í verkefnisstjórnina voru skipuð: Formaður Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri, Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, Akureyri, Hilda Jana Gísladóttir, kennari og fjölmiðlamaður, Akureyri, Laufey Petrea Magnúsdóttir, aðstoðarskólameistari, Akureyri og Jón Helgi Pétursson, sparisjóðsstjóri, Grenivík. Starfsmenn verkefnisstjórnarinnar voru Baldur Pétursson, iðnaðarráðuneyti og Guðmundur Guðmundsson, Byggðastofnun. Gert var ráð fyrir að verkefninu lyki eigi síðar en við lok ársins 2004.
Rúmlega 40 aðilar störfuðu í 7 mismunandi starfshópum á vegum verkefnisstjórnarinnar, þar sem komu að hinir ýmsu aðilar m.a. frá öðrum ráðuneytum og stofnunum þeirra, atvinnulífi, launþegum, sérfræðngar, ofl. Einnig voru fengnir erlendir sérfræðingar til landsins og farnar voru kynnisferðir erlendis. Jafnframt hafði verkefnisstjórnin samvinnu við bæjaryfirvöld og fulltrúa sveitarfélaga á svæðinu og nálægum byggðarlögum.
Þar sem þetta eru tillögur verkefnisstjórnar til ráðuneytisins, mun iðnaðar- og viðskiptaráðherra á næstunni yfirfara þessar tillögur og meta þær og kalla eftir samstarfi við viðeigandi aðila, s.s. önnur ráðuneyti, bæjaryfirvöld á Akureyri, sveitarfélög á svæðinu, atvinnulíf og fl. Einnig má líta á tillögurnar sem einskonar hugmyndabanka að framkvæmdum, sem meta verður með skilvirkum og markvissum hætti á næstunni í samvinnu við ýmsa aðila.
Skýrsluna er hægt að nálgast hér. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/salubot-i-glerarkirkju | Sálubót í Glerárkirkju
Söngfélagið Sálubót heldur tónleika í Glerárkirkju á miðvikudag kl. 20.30. Með hópnum syngur fólk úr sveitum Suður-Þingeyjarsýslu og frá Húsavík og Akureyri. Það hittist til æfinga að meðaltali einu sinni í viku yfir veturinn í Stórutjarnaskóla. Félagið hefur starfað af miklum krafti í bráðum 11 ár, æft vel og mikið haldið tónleika, bæði innanlands og utan. Þetta er 6. starfsár stjórnandans, sem er Jaan Alavere frá Eistlandi, en auk þess að vera tónlistarkennari á Stórutjörnum, hefur hann komið víða við í tónlistarlífi svæðisins undanfarin ár. Jan hefur líka samið nokkur lög sérstaklega fyrir kórinn, m.a. lagið "Sálubót" við texta Mývetningsins Friðriks Steingrímssonar, sem er tileinkað kórnum. Í byrjun janúar sl. söng kórinn 24 lög inn á geisladisk, bæði innlend og erlend, þar af 4 eftir stjórnandann, og kemur sá diskur út í byrjun apríl. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/sumarvinna-16-ara-unglinga | Sumarvinna 16 ára unglinga
Unglingum fæddum 1988 er gefinn kostur á að sækja um 6 vikna vinnu í sumar hjá Akureyrarbæ, 7 tíma á dag eða samtals 210 vinnustundir. Umsóknum skal skilað í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar dagana 15. og 16. apríl frá kl. 9 til 16. Vinna 14 og 15 ára unglinga verður með svipuðum hætti og síðastliðið sumar og verða störfin auglýst sérstaklega síðar. |
https://www.akureyri.is/is/frettir/menningarveisla-a-glerartorgi | Menningarveisla á Glerártorgi
Kaupfélag Eyfirðinga býður til menningarveislu í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi á laugardaginn kemur og hefst dagskráin kl. 13.30. KEA svf. efndi í fyrsta skipti í fyrra til slíkrar menningarhátíðar á Glerártorgi og tókst hún einstaklega vel. Fullt var út úr dyrum og var það mál húsvarða á Glerártorgi að ekki hefðu fleiri komið í verslunarmiðstöðina frá því að hún var opnuð. Í ljósi þess að viðtökur voru svo gríðarlega góðar var ákveðið að halda áfram á sömu braut og nú hefur verið skipulögð viðamikil dagskrá, sem byggir á uppákomum listafólks á öllum aldri á félagssvæði KEA. Með því að efna til menningarveislunnar á Glerártorgi vill KEA styðja við bakið á fjölþættu menningarlífi á svæðinu og bjóða fólki að njóta þess sem á borð verður borið nk. laugardag.
Dagskráin er sem hér segir:
Freyvangsleikhúsið - atriði úr Ronju ræningjadóttur
Tónlistarhópurinn Fjörfiskar á Dalvík
Kór Akureyrarkirkju syngur nokkur lög
Heimir Bjarni Ingimarsson - fulltrúi VMA og silfurverðlaunahafi í Söngkeppni framhaldsskólanna
Tríóið Lostanganzeles (skipað þremur ungum piltum)
Ljóðalestur - sigurvegarar Stóru upplestrarkeppninnar í Eyjafirði 2004
- Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir, Húsabakkaskóla
- Magnús Arturo Batista, Síðuskóla
- Jósefína Elín Þórðardóttir, Grenivíkurskóla
Hljómsveitin Skytturnar
Leikfélag VMA - atriði úr leikritinu Honk!
Karlakór Eyjafjarðar syngur nokkur lög
Nomwe Marimba - tónlistarhópur nemenda úr Hafralækjarskóla í Aðaldal
Úr leikritinu um Ronju ræningjadóttur |